Home / Fréttir / Biden setur Pútin afarkosti í netstríði

Biden setur Pútin afarkosti í netstríði

Joe Biden Bandaríkjaforseti veitti Vladimir Pútin Rússlandsforseta viðvörun föstudaginn 8. júlí. Pútin hefði stöðugt minni tíma til að leggja hendur á glæpamennina sem stundi gíslatöku í netheimum og beiti sér gegn Bandaríkjunum.

Í símtali sem Biden átti við Pútin sagði Bandaríkjaforseti að þetta væri lokaviðvörun um þetta efni. Yrði ekki tekið á þessum glæpamönnum í Rússlandi myndu Bandaríkjamnenn grípa til sinna ráða til að binda enda á starfsemi þeirra.

Biden sagði að nú væri svo komið að Bandaríkjastjórn liti ekki lengur á netárásirnar sem lögreglumál heldur sem þjóðaröryggismál. Bandarísku viðbrögðin yrðu í samræmi við það.

Í The New York Times segir að orðalag í þessa veru af hálfu bandarískra stjórnvalda sé sambærilegt því sem þau og stjórnvöld annarra ríkja noti þegar þau rökstyöja nauðsyn íhlutunar innan landamæra annars ríkis til að uppræta hópa hryðjuverkamanna eða eiturlyfjahringi.

Sérfræðingar segja að viðbrögð Bandaríkjaforseta beini enn meiri athygli að nýjum átakafleti í samskiptunum við Rússa. Ástandið nú sé gjörólíkt samskiptunum í kalda stríðinu, þau hefðu oft verið óvinsamleg en þó ætíð innan fastmótaðara marka. Nú sé hætta á stjórnlausri stigmögnun sem leiði til enn meiri vandræða milli ríkjanna. Stór orð Bidens séu þess eðlis að hann tapi trúverðugleika standi hann ekki við þau.

Þá er árásum Rússa lýst á þann veg að erfitt sé að svara þeim eða fæla glæpanmennina frá iðju sinni. Netglæpamennirnir séu ef til vill í Rússlandi þegar þeir hefja gíslatökuferlið en netþjónarnir sem þeir nota geti verið hvar sem er í heiminum. Árásin sé auk þess gerð á heimavelli í Bandaríkjunum.

Þegar ráðist var á bandaríska olíufyrirtækið Colonial Pipeline fyrir skömmu hætti fyrirtækið afgreiðslu á eldsneyti. Þetta olli miklu uppnámi meðal viðskiptavina þess og lá við að þjóðarvandi skapaðist vegna hræðsluviðbragða þeirra.

Síðan hafa netglæpamennirnir enn sótt í sig veðrið og ráðist á netþjónustufyrirtæki með viðskipti um heim allan.

Innan Bandaríkjahers starfar U.S. Cyber Command, netherstjórn, sem hefur það verkefni að valda netvandræðum og tjóni í öðrum löndum. Viðvörun Bidens snýr að því að taki Pútin ekki á netglæpamönnum í eigin landi neyðist Bandaríkjaher til að gera það þótt brjótast verði inn í rússnesk netkerfi.

Á fundi með Pútin í Genf 16. júní 2021 afhenti Biden Rússlandsforseta skjal með upplýsingum um 16 lykilsvið sem hann sagði að Rússar yrðu að láta í friði í netheimum.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …