Home / Fréttir / Biden segir innrás „hugsanlega“ í febrúar

Biden segir innrás „hugsanlega“ í febrúar

Rússneskir skriðdrekar við landamæri Úkraínu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði fimmtudaginn 27. janúar „vel hugsanlegt“ að Rússar gerðu innrás í Úkraínu í næsta mánuði. Í Kreml sögðu menn að „lítil ástæða væri til bjartsýni“ eftir að Bandaríkjastjórn hafnaði meginkröfum þeirra. Kremlverjar bættu þó við að enn mætti ræða saman.

Biden sagði í símtali við Volodymyr Zelensky Úkraínuforseta 27. janúar Rússar kynnu hugsalega að ráðast inn í Úkraínu í febrúar. Emily Horne, upplýsingafulltrúi bandaríska þjóðaröryggisráðsins, sagði forsetann aðeins hafa áréttað fyrri viðvaranir sínar.

Nú er beðið viðbragða af hálfu Vladimirs Pútins Rússlandsforseta við svörum NATO og Bandaríkjastjórnar sem send voru til Moskvu miðvikudaginn 26. janúar. Þar var hafnað kröfum Rússa um að loka NATO fyrir Úkraínu og um að Rússar hefðu áhrif á hvernig NATO-ríkin höguðu vörnum sínum í nágrenni Rússlands.

Dmitríj Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, sagði að svörin frá Washington og NATO gæfu „litla ástæðu til bjartsýni“. Það væri þó í þágu rússneskra og bandarískra hagsmuna að samtalið héldi áfram.

Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, sagði að í svari Bandaríkjastjórnar væru nokkur atriði sem gætu leitt til „alvarlegra viðræðna um annars flokks mál“ en hann lagði áherslu á að „í skjalinu [væri] ekki að finna neitt jákvætt svar varðandi höfuðmálið“.

Lavrov sagði að háttsettir embættismenn mundu leggja tillögur sínar fyrir Pútin og Peskvo boðaði að innan skamms mundu Rússar svara.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði að stjórnvöld í Kiev hefðu séð svarbréf Bandaríkjastjórnar áður en það var afhent Rússum og gerðu ekki neinar athugasemdir við það.

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði í þingumræðum í Berlín 27. janúar að þýska stjórnin ætti nána samvinnu við bandamenn sína um hugsanlegar refsiaðgerðir gegn Rússum, Nord Stream 2 gasleiðslan frá Rússlandi og Þýskalandi væri undir í málinu.

Olaf Scholz Þýskalandskanslari fer til fundar við Joe Biden 7. febrúar í Washington. Verður þetta fyrsti fundurinn þeirra eftir að Scholz varð kanslari í desember 2021.

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …