Home / Fréttir / Biden refsar Rússum fyrir kosningaafskipti og tölvuárás

Biden refsar Rússum fyrir kosningaafskipti og tölvuárás

solarwinds

Bandaríkjastjórn rak fimmtudaginn 15. apríl 10 rússneska sendiráðsmenn úr landi og beitti um þrjá tugi rússneskra einstaklinga og fyrirtækja refsingu til að svara fyrir afskipti undir handarjaðri Rússlandsstjórnar af bandarísku forsetakosningunum 2020 og fyrir tölvuárás á ýmsar bandarískar alríkisstofnanir.

Þess hefur verið vænst lengi að tölvuárásinni á SolarWinds-öryggisfyrirtækið yrði svarað af hálfu bandarískra yfirvalda. Þetta er fyrsta refsiaðgerðin gegn Vladimir Pútin Rússlandsforseta og stjórn hans vegna árásinnar og innbrotsins sem henni fylgdi. Talið er að með því að brjótast inn í tölvukerfi SolarWinds hafi Rússum tekist að smita tölvuforrit með spilliforriti sem gerði þeim kleift að komast inn í netkerfi að minnsta kosti níu bandarískra alríkisstofnana. Bandarískir embættismenn telja að með þessu hafi verið safnað opinberum trúnaðarupplýsingum innan tölvukerfa ríkisstofnananna.

Fyrir utan þessa innrás í tölvukerfin gefa bandarískir embættismenn til kynna að þeir hafi vitneskju um að Vladimir Pútin hafi gefið heimild til að Rússar gripu til skoðanamyndandi-aðgerða í því skyni að auðvelda Donald Trump að ná endurkjöri sem Bandaríkjaforseti. Engin vitneskja liggur þó fyrir um að Rússar eða nokkur annar hafi átt við atkvæðaseðla eða blandað sér í atkvæðatalningu.

Meðal þeirra sem sæta refsingu af hálfu Bandaríkjastjórnar eru sex rússnesk fyrirtæki sem standa að baki netaðgerðum Rússa. Þá eru 32 einstaklingar og aðilar sakaðir um að blanda sér í bandarísku kosningabaráttuna í fyrra, meðal annars með upplýsingafölsunum.

Bandaríska forsetaembættið segir að í hópi brottreknu Rússanna 10 séu rússneskir njósnarar.

Í sjónvarpsviðtali í mars svaraði Biden spurningu um hvort hann teldi Pútín „morðingja“ með orðunum „I do“ – ég geri það. Hann sagði tíma „undirgefni“ Bandaríkjamanna gagnvart Pútin liðinn. Pútin kallað þá sendiherra sinn í Washington heim til skrafs og ráðagerða og rifjaði upp sögu þrælahalds og upprætingar frumbyggja í Bandaríkjunum og kjarnorkuárásina á Japan í síðari heimsstyrjöldinni.

Í forsetatíð Baracks Obama var rússneskum sendiráðsmönnum vísað úr landi árið 2016 vegna rússneskra afskipta af forsetakosningunum 2016. Þótt Trump-stjórnin drægi stundum við sig að gagnrýna Pútín rak hún einnig rússneska sendiráðsmenn úr landi árið 2018 þegar útsendarar rússneskra stjórnvalda voru grunaðir um að eitra fyrir fyrrverandi rússneskum njósnara í Salisbury á Englandi.

Þetta er í annað skipti sem Joe Biden Bandaríkjaforseti og stjórn hans beitir refsingum gagnvart Rússum. Í mars var sjö miðlungs embættismönnum í Rússlandi refsað auk fjölmargra rússneskra aðila fyrir að hafa næstum myrt rússneska stjórnarandstæðinginn Alexei Navalníj með eitri. Hann er nú fársjúkur í rússneskum þrælkunarbúðum og óttast er um líf hans.

 

 

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …