Home / Fréttir / Biden og Xi á tíðindalausumn fjarfundi í þágu stöðugleika

Biden og Xi á tíðindalausumn fjarfundi í þágu stöðugleika

Joe Biden og Xi Jinping á fjarfundinum 15. nóvember 2021.

Að kvöldi mánudags 15. nóvember efndu Joe Biden Bandaríkjaforseti og Xi Jinping Kínaforseti til fjarfundar sem stóð í þrjá og hálfa klukkustund. Hér er stuðst við frásögn á fundinum sem birtist á bandarísku vefsíðunni Axios en þar segir að í samtalinu hafi forsetarnir farið um víðan völl og stundum verið hreinskiptnir.

Fundurinn skilur ekki eftir „sérstök tíðindi“ en talið er að hann hafi komið til móts við kröfuna um að tímabært væri að stuðla að stöðugleika í samskiptum ríkjanna. Bent er á að í aðdraganda viðræðna forsetanna hafi af bandarískri hálfu verið talað um „fjarfund“ en ekki „leiðtogafund“. Beri að skilja það svo að ekki yrði mikilla frétta að vænta. Þær snúast raunar meira um að fundurinn hafi verið haldinn en efni hans. Samtalið eitt lofi góðu.

„Samtalið var virðulegt, hreinskiptið og opið,“ sagði háttsettur bandarískur embættismaður við blaðamenn að fundinum loknum.

Í aðdraganda fundarins höfðu bandarískir embættismenn lagt áherslu á að nauðsynlegt væri að „hafa ábyrga stjórn á samkeppni“ milli ríkjanna. Þeir fögnuðu að um þetta hefði verið rætt á fundinum.

Strax eftir að niðurstaða lá fyrir á COP26 loftslagsráðstefnunni í Glasgow laugardaginn 13. nóvember var sagt frá því að forsetarnir mundu tala sama 15. nóvember. Á ráðstefnunni náðist samkomulag milli fulltrúa ríkjanna um að leggja harðar að sér en áður til að hefta útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Þessi sameiginlega yfirlýsing kom á óvart og var henni fagnað sem skrefi í þá átt að draga úr spennu milli risaveldanna tveggja. Þau hafa undanfarið deilt um refsiaðgerðir, bann á viðskiptum með tæknivarning og hernaðarumsvif í nágrenni Tævans.

Biden og Xí vildu með samtali sínu staðfesta að það sem gerðist í Glasgow væri jákvætt skref fyrir frekari samskipti og er talið að þeim hafi tekist það ætlunarverk.

Í upphafsorðum sínum sagði Biden: „Mér finnst að ábyrgð okkar sem leiðtoga Kína og Bandaríkjanna sé að tryggja að samkeppni milli landa okkar verði ekki að átökum, hvort sem það er fyrir ásetning eða tilviljun. Við verðum að reisa einskonar öryggisgrind í krafti heilbrigðrar skynsemi.“

Í upphafsorðum sínum sagði Xi: „Heilbrigð samskipti Kína og Bandaríkjanna eru forsenda þess að þróun verði í hvoru landi fyrir sig og þess að unnt sé að tryggja friðsamlegt og stöðugt alþjóðlegt umhverfi, þar með að finna gagnleg svör við hnattrænum viðfangsefnum á borð við loftslagsbreytingar … og COVID-farsóttina.“

Biden og Xi ræddu „ítarlega“ um Tævan og staðfesti Biden að Bandaríkjamenn virtu stefnu kínversku stjórnarinnar um „eitt Kína“ að sögn háttsetta bandaríska embættismannsins. Þá ræddu leiðtogarnir um loftslagsbreytingar, alþjóðleg heilbrigðismál, orkumál, viðskipti, Íran og Afganistan.

„Við áttum ekki von á neinum stórtíðindum og þau urðu ekki,“ sagði embættismaðurinn. Fundurinn hefði frekar snúist um að viðhalda „málum í sama horfi“.

Biden nefndi mannréttindamál oftar en einu sinni en um þau ríkir ágreiningur milli forsetanna. „Það er ekkert leyndarmál að heimssýn þeirra er ekki sú sama,“ sagði embættismaðurinn.

Ríkisfjölmiðlar í Kína lögðu áherslu á að Xi hefði hvatt til stöðugleika í samskiptum ríkjanna, „risaskip“ Bandaríkjanna og Kína ættu að komast hjá árekstri.

Sérfræðingar í málefnum Kína segja að Xi glími ekki síður við mikinn vanda á heimavelli en Biden. Í Kína lifi menn í sífelldum ótta við að COVID-19 blossi upp að nýju. Þá ríki þar alvarlegur orkuskortur og hætta sé á að húsnæðisblaðra springi sem leiði til mikils efnahagsvanda. Það sé hvorugum forsetanna hagstætt að nú magnist hættuástand í alþjóðamálum.

 

 

 

Skoða einnig

Bandarísk hættuviðvörun gegn stríði í Úkraínu

  Bandaríkjastjórn hefur látið bandamönnum sínum í Evrópu í té trúnaðarupplýsingar og landakort frá njósnastofnunum …