Home / Fréttir / Biden og Pútin ræddu norðurslóðir „talsvert ítarlega“

Biden og Pútin ræddu norðurslóðir „talsvert ítarlega“

Joe Biden og Vladimir Pútin heilsast í upphafi viðræðnanna í Genf 16. júní 2021.

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vladimir Púin Rússlandsforseti hittust á fundi í Genf miðvikudaginn 16. júní. Litið er á fundinn sem skref til nánara samstarfs Bandaríkjamanna og Rússa á tímum sem sagðir eru mótast af meiri erfiðleikum í samskiptum þeirra en áður frá hruni Sovétríkjanna fyrir 30 árum.

Forsetarnir ákváðu meðal annars að sendiherrar landanna færu að nýju annars vegar til Moskvu og hins vegar til Washington en stólar þeirra hafa staðið auðir um nokkurt skeið vegna vandræða í stjórnmálasambandi ríkjanna.

Í frétt á norsku vefsíðunni Barents Observer um forsetafundinn segir 17. júní að þeir hafi rætt stöðuna á norðurslóðum (e. Arctic) „talsvert ítarlega“. Vitnað er í orð Pútins á blaðamannafundi að loknum viðræðum hans við Biden. Pútin sagði: „ Já, þetta málefni var rætt í víðu samhengi og talsvert ítarlega.“

Pútin sagði einnig til áhersluauka á blaðamannafundinum:

„Þetta er mjög mikilvægt, áhugavert viðfangsefni í ljósi almennrar þróunar á norðurslóðum og síðan sérstaklega varðandi Norðursiglingaleiðina en gífurlegir efnhagslegir hagsmunir eru þar í húfi fyrir mörg lönd, þar á meðal lönd utan svæðisins.“

Rússlandsforseti blés á allar getsakir um að Rússar væru að hervæða norðurslóðir með því að verja miklum fjármunum til að endurbæta hernaðarleg mannvirki á svæðinu. Hann sagði áhyggjur vegna þess „algjörlega ástæðulausar“ og Rússar væru aðeins að endurheimta það sem tapaðist eftir hrun Sovétríkjanna.

„Ég sagði viðmælendum mínum að ég teldi ekki neina ástæðu til að hafa áhyggjur. Þvert á móti er það einlæg sannfæring mín að við getum starfað saman og eigum að starfa saman í þessu tilliti,“ sagði Pútin. „Ég sé ekkert vandamál þarna sem við getum ekki leyst.“

Pútin áréttaði einnig að Rússar færu að öllu leyti að alþjóðalögum á Norðursiglingaleiðinni á milli Norður-Atlantshafs og Kyrrahafs. Erlend skip, flutningaskip og herskip, ættu auðveldlega að geta siglt þessa leið.

„Strandríki ber að tryggja skipum, þar á meðal herskipum, friðsamlega för. Erum við í raun að móti því? Nei, við erum því hlynntir,“ sagði Pútin,

„Ef við öll saman, allar áhugasamar þjóðir, og ef til vill fyrir og síðast þjóðirnar í Norðurskautsráðinu vinnum saman að lausn þessara mála – og hér eru mál sem þarfnast frekari skoðunar – er ég ekki i neinum vafa um að við getum fundið grunn fyrir ákvarðanir og lausnir.“

Á Barents Observer segir að af bandarískri hálfu hafi mikilvægi norðurslóða í forsetaviðræðunum einnig verið staðfest. Á fundi með blaðamönnum fyrir brottför sína frá Genf tók Joe Biden fram að hann hefði rætt við Putin um „hvernig við getum tryggt að norðurslóðir verði áfram svæði samstarfs frekar en átaka“. Biden tók einnig fram að nauðsynlegt væri að finna „starfsaðferð sem tryggði að norðurslóðir séu í raun frjálst svæði“.

Á Barents Observer er minnt á að ekki sé mánuður liðinn frá því að Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hittust á fundi í tengslum við ráðherrafund Norðurskautsráðsins í Hörpu í Reykjavík. Þar tóku Rússar við formennsku í Norðurskautsráðinu af Íslendingum.

Hlýnun á norðurslóðum er mörgum áhyggjuefni. Biden-stjórnin hefur allt aðra afstöðu til loftslagsmála en stjórn Donalds Trumps og Biden telur mikilvægt að eiga náið samstarf við Rússa í því efni vegna þess hve land þeirra er risavaxið.

Sérlegur fulltrúi Bidens í loftslagsmálum, John Kerry, hefur lagt leið sína til Moskvu til að ræða málin við Rússa. Vegna formennsku sinnar í Norðurskautsráðinu eru rússnesk stjórnvöld undir meiri þrýstingi en áður í loftslagsmálum.

Óljóst er hve hátt loftslagsmálin bar í viðræðunum í Genf. Á blaðamannafundinum spurði blaðamaður Pútin um málið en forsetinn svaraði ekki spurningunni.

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …