Home / Fréttir / Biden lofar birtu í stað svartnættis Trump-áranna

Biden lofar birtu í stað svartnættis Trump-áranna

Joe Biden flytur flokksþingsræðuna 20. ágúst 2020.
Joe Biden flytur flokksþingsræðuna 20. ágúst 2020.

Joe Biden hefur formlega verið tilnefndur forsetaefni demókrata í kosningunum í Bandaríkjunum í nóvember 2020. Hann flutti ræðu til að þakka stuðning við sig og staðfesta framboð sitt endanlega á stafrænum landsfundi flokksins fimmtudaginn 20. ágúst.

Þetta var hápunkturinn á 50 ára stjórnmálaferli Bidens. Hann hefur þrisvar tekið þátt í prófkjöri til forseta innan Demókrataflokksins, setið 36 ár í öldungadeild þingsins og átta ár sem varaforseti Baracks Obama. Nú hefst 76 daga einvígi hans við Donald Trump forseta. Í ræðu sinni nefndi Biden aldrei nafn Trumps.

Ræðan snerist að verulegu leyti um COVID-19-faraldurinn –efnahagsþrengingarnar sem hann hefur valdið og öll dauðsföllin sem til hans má rekja. Við blasti meiri ójöfnuður en áður hefði sést. Kjarnin málsins væri sá að forseti þjóðarinnar hefði ekki „staðið undir höfuðskyldu sinni við þjóðina: Honum tókst ekki að vernda okkur,“ sagði Biden.

„Ákaflega áhrifamikil ræða […] Nú verður Trump að berjast við frambjóðanda en ekki skrípamynd,“ sagði Chris Wallace, stjórnandi helsta stjórnmálaþáttar Fox News-sjónvarpstöðvarinnar. Á hana horfa þeir helst sem styðja Trump. „Framúrskarandi ræða,“ sagði Karl Rove, kosninga- og stjórnmálaráðgjafi repúblikana.

Liðsmenn Trump kalla Biden gjarnan ruglukoll með elliglöp sem haldið sé frá sjónvarpsmyndavélum af því að hann komi varla frá sér óbjagaðari setningu. Myndin sem blasti við sjónvarpsáhorfendum 20. ágúst var allt önnur. Í 25 mínútna langri ræðu dró hann ekkert undan í gagnrýni sinni á stjórnarhætti Trumps. Nú væri tími kominn til að hleypa birtu að nýju í þjóðlífið eftir fjögur ár í svartnætti.

„Megi sagan bera með sér að upphaf endaloka þessa myrka bandaríska kafla hófst hér í kvöld þegar kærleikur og von og ljós sameinuðust í baráttu fyrir þjóðarsálina. Og þetta er baráttan sem við munum vinna saman. Því lofa ég ykkur,“ sagði Joe Biden við lok ræðu sinnar.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …