Home / Fréttir / Biden krefst útskriftar vegna fullyrðinga um leynisímtal Trumps

Biden krefst útskriftar vegna fullyrðinga um leynisímtal Trumps

 

Joe Biden
Joe Biden

Joe Biden, fyrrv. varaforseti Bandaríkjanna, krefst þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti birti útskrift á símtali sem sagt er að Trump hafi átt við Volodímír Zelenskíj, forseta Úkraínu, og lagt að honum að rannsaka Biden og son hans sem stundaði viðskipti í Úkraínu.

Biden birti yfirlýsingu föstudaginn 20. september og sagði að Trump ætti „tafarlaust“ að birta útskrift af umræddu símtali svo að bandaríska þjóðin gæti sjálf lagt dóm á efni þess.

Biden tekur þátt í prófkjöri innan flokks demókrata vegna forsetaframboðs gegn Trump í nóvember 2020. Hann sneri sér einnig til yfirmanns bandarískra leyniþjónustustofnana og sagði að hann ætti að „hætta að draga lappirnar“ og láta Bandaríkjaþingi í té leynilega kvörtun vegna símtalsins frá ónafngreindum uppljóstrara.

Fulltrúadeild þingsins kannar nú efni frétta þar sem fullyrt er að í símtalinu hafi Trump hótað að Bandaríkjastjórn drægi úr hernaðarlegum stuðningi sínum nema stjórnvöld í Úkraínu könnuðu hvað Hunter Biden, sonur Bidens, hefði verið að gera í Úkraínu.

Rudy Giuliani, einka-lögfræðingur Trumps, hefur sakað Biden um að skipa stjórn Úkraínu að reka ríkissaksóknara sinn til að stöðva rannsókn á gasframleiðandanum Burisma Holdings. Á sínum tíma sat Hunter í stjórn Burisma.

Demókratar segja það alvarlega valdníðslu reynist rétt að Trump hafi hótað að veita ekki erlendri ríkisstjórn aðstoð nema hún rannsakaði einkamálefni stjórnarandstæðings hans á heimavelli. Margir demókratar segja að valdníðsla af þessu tagi kalli á aðgerðir til að dæma forsetann úr embætti.

Eftir að fulltrúadeildin hóf rannsókn á símtali forseta Bandaríkjanna og Úkraínu tilkynnti bandaríska forsetaembættið í fyrri viku að það gæfi heimild til útgreiðslu á 250 milljón dollara hernaðaraðstoð til Úkraínu en fram til þess hafði hún verið fryst.

Fjármununum er einkum varið til að þjálfa og kaupa tæki fyrir her Úkraínu vegna átaka hans við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu sem njóta stuðnings Rússa. Átökin hafa staðið í meira en fimm ár og kostað rúmlega 13.000 manns lífið.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …