Home / Fréttir / Biden: Engar þotur til Kyív – Zelenskíj: Rússar hefna sín

Biden: Engar þotur til Kyív – Zelenskíj: Rússar hefna sín

F-16 orrustuþota.

Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að Bandaríkjastjórn ætli ekki að senda F-16 orrustuþotur til Úkraínu. Blaðamaður spurði forsetann mánudaginn 30. janúar hvort orðið yrði við óskum Úkraínustjórnar um orrustuþotur. Svarið var stutt: „Nei“.

Olaf Scholz Þýskalandskanslari sagði sunnudaginn 29. janúar að þýska stjórnin mundi ekki senda orrustuþotur til Úkraínu. Í samtali við þýska dagblaðið Tagesspiegel áréttaði kanslarinn að NATO ætti ekki í átökum við Rússa og mundi „ekki leyfa þá stigmögnun“ sem yrði með sendingu orrustuvéla til Úkraínu.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði mánudaginn 30. janúar það liggja í hlutarins eðli að ekkert væri „útilokað“ í viðræðum um hernaðaraðstoð við Úkraínumenn. Aðstoðin mætti þó hvorki kveikja í ástandinu né takmarka getu Frakka til sjálfsvarnar. Frakkar skoðuðu hvert mál fyrir sig.

Pólverjar útiloka ekki að senda F-16 þotur til Kyív. Mateusz Morawiecki forsætisráðherra sagði hins vegar að ekkert skref yrði stigið í þá átt „án algjörrar samræmingar“ milli aðildarríkja NATO.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði mánudaginn 30. janúar að hjá Rússum væri „stóra hefndin“ gegn Úkraínumönnum hafin. Þeir ætluðu að hefna fyrir þá andstöðu sem her þeirra hefði mætt.

Í um tvo mánuði hefur þrátefli ríkt á vígvellinum í Úkraínu og hefur Zelenskíj hvað eftir varað við að Rússar ætluðu að rjúfa kyrrstöðu hers sín í suðri og austri með stórsókn.

Forsetinn segir að Rússar haldi uppi stöðugum árásum í austri þrátt fyrir mikið mannfall í liði þeirra. „Ég tel að í raun vilji Rússar koma fram stórri hefnd sinni. Ég held að sú sókn sé hafin.“

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …