Home / Fréttir / Biden boðar endurkomu á alþjóðavettvang

Biden boðar endurkomu á alþjóðavettvang

Joe Biden flytur ræðu í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Antony Blinken utanríkisráðherra í bakgrunni.
Joe Biden flytur ræðu í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Antony Blinken utanríkisráðherra í bakgrunni.

„Boðskapur minn til heimsins í dag er: Bandaríkin eru komin aftur,“ sagði Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, í stefnuræðu um utanríkismál sem hann flutti í bandaríska utanríkisráðuneytinu fimmtudaginn 4. febrúar.

„Undir bandarískri forystu verður á þessari stundu að takast á við sókn forræðisafla, þar á meðal vaxandi viðleitni Kínverja til að standa Bandaríkjamönnum snúning og ásetning Rússa um að skaða og rjúfa lýðræði okkar,“ sagði forsetinn.

Hann lýsti Kínverjum sem „alvarlegustu keppinautum“ Bandaríkjamanna þegar litið væri til hnattræns valds og áhrifa en fór harðari orðum um Rússa og sagði þá í hópi „andstæðinga“ Bandaríkjamanna.

„Ég sagði það afdráttarlaust við Pútin, á allt annan hátt en forveri minn [Donald Trump] að nú væri að baki sá tími þegar Bandaríkjastjórn léti áreiti Rússa sér í léttu rúmi liggja – afskipti af kosningum okkar, netárásir, eiturárásir á eigin borgara. Við munum ekki hika við að gera Rússum þetta dýrkeyptara og verja lífshagsmuni okkar,“ sagði Biden.

Hann hvatti Pútin til að veita stjórnarandstæðingnum Alexei Navalníj frelsi „strax og án skilyrða“. Hann sagði að Bandaríkjastjórn næði meiri árangri en ella gagnvart Rússum í samstarfi við samhuga ríkisstjórnir. Hann sagðist hafa rætt við leiðtoga Bretlands, Þýskalands, Frakklands og NATO um að styrkja að nýju stoðir lýðræðislegra bandalaga sem hefðu veikst undanfarin ár vegna hirðuleysis og þess sem hann kallaði „misþyrmingu“.

Slagorðið sem Biden notaði America is back boðar annað en slagorð Trumps America first sem endurspeglaði kulda í garð bandamanna og samstarfsríkja Bandaríkjamanna.

Donald Trump boðaði að 12.000 bandarískir hermenn yrðu fluttir frá Þýskalandi. Innan NATO var litið á ákvörðunina sem einskonar vinahót í garð Vladimirs Pútin eins og ýmis ummæli sem Trump lét falla á blaðamannafundum.

Biden sagði í ræðu sinni 4. febrúar að bandaríska varnarmálaráðuneytið endurmæti nú stöðu og veru bandarísks herafla víða um heim og þar til niðurstaða matsins lægi fyrir yrði ekki hróflað við bandarískum hermönnum í Þýskalandi.

Forsetinn sagðist stefna að því að „endurheimta“ siðferðilegan áhrifamátt Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi, hann hefði minnkað verulega undanfarið.

Hann fordæmdi stjórnarbyltingu hersins í Búrma og hvatti til þess að stríðsátökum yrði lokið í Jemen. Áfram yrði unnið með Sádí-Aröbum og stutt við bakið á þeim.

Hann sakaði Kínastjórn um að „ráðast á“ mannréttindi en hann vék ekki að hrikalegum mannréttindabrotum að Úígúrum, múslimskum minnihluta í Kína.

„Við erum fús til að vinna með stjórnvöldum í Peking þegar það fellur að bandarískum hagsmunum,“ sagði hann.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …