Home / Fréttir / Biden ætlar að bjóða Pútin „diplómatíska leið“ frá Úkraínu

Biden ætlar að bjóða Pútin „diplómatíska leið“ frá Úkraínu

Joe Biden

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vladimir Pútin Rússlandsforseti ræða saman á fjarfundi fimmtudaginn 30. desember. Er þetta annar fjarfundur þeirra á innan við mánuði og er til hans efnt til að leggja línur fyrir fund embættismanna ríkjanna í Genf 10. janúar 2022 sem miðar að því að minnka hættuástandið við landamæri Úkraínu og Rússlands.

Fréttir frá Bandaríkjunum herma að Biden ætli á fundinum að leggja fyrir Pútin tillögur um „diplómatíska leið“ út úr hættuástandinu sem nú ríkir vegna hersafnaðar Rússa við landamæri Úkraínu.

Fundurinn verður klukkan 20.30 að íslenskum tíma og verður Joe Biden á heimili sínu í Delaware þegar hann talar við Pútin,

Bandaríkjastjórn hefur lýst „miklum áhyggjum“ yfir rússneska herliðinu við landamæri Úkraínu og hvatt til þess að fundin verði friðsamleg leið til að leysa úr ágreiningi ráðamanna í Moskvu og Kiev. Stjórnin hefur jafnframt sagt að hún sé „reiðubúin til viðbragðs“ ráðist Rússar inn í Úkraínu. Ráðamenn í Washington vilja að sögn ónafngreinds heimildarmanns að „rússnesku hermennirnir hverfi að nýju til venjulegra búða sinna“.

Emily Horne, upplýsingafulltrúi bandaríska þjóðaröryggisráðsins, sagði miðvikudaginn 29. desdember að Joe Biden ráðgaðist við bandalags- og samstarfsþjóðir Bandaríkjanna fyrir Pútin-fundinn. Antony Blinken utanríkisráðherra hefði til dæmis rætt við Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, og utanríkisráðherra Bretlands, Frakklands og Þýskalands.

Í samtalinu við Volodymyr Zelensky hefði bandaríski utanríkisráðherrann ítrekað „óbifanlegan stuðning Bandaríkjanna við sjálfstæði, fullveldi og landsyfirráðarétt Úkraínu andspænis auknum hernaðarlegum viðbúnaði Rússa“ sagði Ned Price talsmaður Blinkens, Volodymyr Zelensky sagði á Twitter að hann hefði fengið tryggingu fyrir „fullum stuðningi Bandaríkjamanna“ til að „svara árás Rússa“.

Í samtölum sínum við utanríkisráðherrana Jean-Yves Le Drian (Frakklandi), Annalenu Baerbock (Þýskalandi) og Elizabeth Truss (Bretlandi) lagði Antony Blinken „áherslu á mikilvægi samræmdrar afstöðu til að fæla Rússa frá því að hafast eitthvað að gegn Úkraínu“. Utanríkisráðherrarnir fjórir voru sammála um að tækist ekki að hemja Rússa myndu þeir verða að gjalda þess með gífurlega þungum og dýrkeyptum gagnaðgerðum af hálfu ríkjanna.

Í samtali Bidens og Pútins í byrjun desember var Biden ómyrkur í máli þegar hann hótaði Rússum með refsiaðgerðum sem yrðu „þyngri en áður hefði sést“ færu Rússar með her á hendur Úkraínumönnum.

Ráðamenn í Moskvu segjast ekki hafa gert neitt annað í nágrenni Úkraínu en bregðast við óvinafagnaði Vesturveldanna. Þeir hafa kynnt tvær tillögur til að minnka spennuna. Þær miða annars vegar að því að hindra aðild Úkraínu að NATO og hins vegar að því að útiloka að skotflaugar og annar stór vopnabúnaður verði í nágrenni rússnesku landamæranna.

Heimild: Le Figaro

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …