
Joe Sopel, ritstjóri BBC í Norður-Ameríku, skrifaði þessa fréttaskýringu á vefsíðu BBC World Service sunnudaginn 24. mars eftir að sagt hafði verið frá meginefni Mueller-skýrslunnar um það hvort Donald Trump og kosningastjórn hans hefðu átt í samsæri með Rússum.
Hvað hét kvikmyndin? Getur það orðið betra? (As Good As It Gets?). Þannig hlýtur Donald Trump að líða núna eftir að dómsmálaráðherrann hefur birt fjögurra blaðsíðna útdrátt úr Mueller-skýrslunni.
Það er ógjörningur að gera of mikið úr gildi þess sem hefur verið sagt.
Vilji demókratar losna við þennan forseta úr Hvíta húsinu verða þeir að gera það í kosningunum í nóvember 2020 en ekki fyrr.
Skýið sem hefur verið yfir forsetanum í 22 mánuði er horfið, byrðin sem hefur hvílt á herðum hans hefur verið fjarlægð.
Án minnsta vafa er þetta besti dagur Donalds Trumps síðan hann var settur í embætti í janúar 2017. Við skulum þess vegna skoða hann nánar.
Mueller-rannsóknin skiptist í tvo hluta – í fyrsta lagi snerist hún um það hvort stofnað hefði verið til leynimakks milli kosningastjórnar Trumps og Rússa.
Þar er um 100% hreinsun að ræða. Sérstaki saksóknarinn Robert Mueller komst að þeirri niðurstöðu að kosningastjórn hans hefði hvorki stofnað til samsæris né samstillingar með Rússum. Það mál er nú að baki.
Ekki er allt á hreinu þegar kemur að spurningunni um hvort reynt hafi verið að hindra framgang réttvísinnar.
Mueller birtir mjög áhugaverða setningu: „Þótt það sé ekki niðurstaða skýrslunnar að forsetinn hafi framið afbrot hreinsar hún hann ekki.“
En William Barr dómsmálaráðherra hefur skoðað setninguna og komist að þessari niðurstöðu: „Rod Rosenstein, vara-dómsmálaráðherra, og ég teljum að sannanir sem aflað var með rannsókn sérstaka saksóknarans dugi ekki til að sýna fram á að forsetinn hafi brotið af sér með því að hindra framgang réttvísinnar.“
Í augum dómsmálaráðherrans er Trump einnig laus allra mála að þessu leyti.
Demókratar munu beina athygli sinni að þessu óvissuatriði. Hér ætla ég aftur að reyna að brjóta þetta niður í tvo hluta. Fyrst lögfræðilega síðan stjórnmálalega.
Lögfræðilega mun dómsmálanefnd fulltrúadeildar þingsins vilja koma höndum yfir alla Mueller-skýrsluna.
Nefndarmenn vilja fá að vita hvers vegna Robert Mueller taldi sig ekki geta hreinsað forsetann af hindrun gegn réttvísinni.
Og rétt er að hafa í huga að hindrun gegn réttvísinni er meðal þess sem fellur undir high crimes and misdemeanours – alvarlega glæpi og afbrot – sem geta leitt til ákæru gegn forsetanum.
Um þetta verður rætt endalaust fram og til baka. Og það mundi ekki undra mig neitt þótt skæðadrífa verði af stefnum.
Þingnefndir geta stefnt mönnum fyrir sig og kallað eftir skjölum. Þær hljóta að láta reyna eins mikið á krafta sína og þeir þola. Þær vilja að leikurinn standi lengi.
Sé ætlunin að ákæra forsetann fyrir að hindra framgang réttvísinnar þarf að liggja fyrir sönnun um ásetning hans. Þótt forsetinn hafi rekið James Comey úr forstjórastöðu FBI og hafi reglulega hellt úr skálum reiði sinnar á Twitter vegna rannsóknarinnar braut hann ekki nein lög hafi hann aðeins gert þetta í þeim tilgangi að skeyta skapi sínu en ekki til að brjóta gegn lögunum.
Hinu má að sjálfsögðu ekki gleyma að án tengsla við þetta er unnið að öðrum sakamálarannsóknum sem snúa að öðrum hliðum Trump-samsteypunnar – að henni sjálfri, innsetningarnefndinni, jafnvel að því hvernig Trump-samsteypan kann að hafa blásið upp eða dregið saman tryggingarverðmæti einstakra eigna.
Þessum málum verður fram haldið. En það er engum vafa undirorpið að hættulegast af öllu var það sem sagt yrði í Mueller-skýrslunni og sú túlkun að í henni felist „sýkna“ er gífurleg hvatning fyrir Donald Trump.
Lítum nú á stjórnmálin.
Það er fullkomlega skiljanlegt að demókratar ætli að ekki að láta deigan síga – fyrir stjórnarandstöðuflokk að fara aðra leið jafngilti uppgjöf og vissulega kann þeim að takast að skaða forsetann enn frekar – mér sýnist þó áhættan sem þeir taka með slíkri stefnu sé meiri en tækifærin sem í henni kunna að felast.
Almenningur horfir á sjónvarpsfréttir og skoðar net-fréttasíður eftir þetta 22 mánaða þreytandi ferli og hugsar: „Gott og vel, svona er þetta. Snúum okkur að öðru.·
Hvað mikið af venjulegu fólki (ég hata orðalagið en fyrirgefið mér) les alla Mueller-skýrsluna og endalausa viðauka hennar, jafnvel verði hún gefin út í heild?
Mig grunar að þeir verði ekki margir. Og öll höfum við mikið fyrir stafni og takmarkaða athygli.
Þeim stjórnmálamönnum vegnar best sem viðurkenna þetta. Stór hluti kjósenda á aðeins eftir að hugsa: „Guði sé lof að þessu er lokið.“
Demókratar standa nú frammi fyrir nákvæmlega sömu hættu og repúblíkanar vegna ákærunnar á hendur Bill Clinton.
Þrátt fyrir meinsæri og lygar var Bill Clinton ótrúlega vinsæll þegar hann hvarf úr embætti árið 2000.
Hvers vegna? Að hluta til vegna þess að efnahagurinn blómstraði. En einnig vegna þess að demókrötum var nóg boðið af því að þeim fannst repúblíkanar ganga þannig fram á stjórnmálavettvangi að þeir tækju eigin hagsmuni fram yfir þjóðarhagsmuni.
Og almenna tilfinningin var – svo að notað sé orð sem Donald Trump er kært – að flokkur repúblíkana stundaði nornaveiðar.
Forystumönnum demókrata í fulltrúadeildinni hefur alltaf verið ljóst að ákæruleiðin væri fyrir hendi. Nú verða þeir hins vegar að meta áhættuna af því að hljóta þann dóm að þeir hafi meiri áhuga á að fella forsetann en á þeim málum sem snerta hag almennra borgara – heilbrigðismálum, atvinnumálum, launamálum, skólagjöldum, menntamálum, fíkniefnamálum o.s.frv.
Þegar þetta er skrifað er Donald Trump um borð í Air Force One á leið aftur til Washington [frá Flórída].
Væri hann ekki bindindismaður er ég viss um að hann væri að skjóta tappa úr kampavínsflösku. Kannski fær hans sér hátíðarglas af Diet Coke með auka ísmola.
Hann lýsti þessu alltaf sem blekkingu og nornaveiðum. Engan þarf að undra að hann segi nú að hann hafi að fullu náð vopnum sínum.
Þótt demókratar leggi sig alla fram um að snúa málinu sér í vil verður það ótrúlega erfitt.