Home / Fréttir / Berlingske: Varúðar þörf vegna Rússa á norðurslóðum

Berlingske: Varúðar þörf vegna Rússa á norðurslóðum

Á kortinu má sjá rússneska herstöðvanetið á norðurslóðum.

Skoðun Berlingske er: Eftir Úkraínu munu Rússar líta til norðurslóða. Það krefst tafarlausra vestrænna viðbragða. Tilgangurinn er greinilega að Rússar geti leikið einleik á norðurslóðum sem hefði alvarlegar afleiðingar fyrir friðinn sem ríkt hefur í ísköldu norðrinu. Við Dönum og öðrum norrænum þjóðum blasa þess  vegna stórverkefni.

Hafi einhver verið í vafa, er ástæðulaust að vera það áfram.

Að loknu stríðinu í Úkraínu munu Rússar halda fast fram „þjóðarhagsmunum“ sínum á norðurslóðum. Samstarf er að baki.

Í nýju stefnuskjali frá Moskvu er Norðurskautsráðið horfið.

Það er ekki af því að Rússum var kastað úr ráðinu vegna stríðsins í Úkraínu. Ástæðan er sú að Vladimir Pútin Rússlandsforseti hefur stórar hugmyndir um norðurslóðir, svæði sem Rússar hafa talið skipta miklu fyrir öryggi sitt, allt frá dögum Péturs mikla.

Í því felst nokkur þversögn að nýja stefnuskjalið birtist nú þegar líður að því að Norðmenn taka við formennsku í ráðinu af Rússum í maí.

Vegna formannsskiptanna hafa Rússar tekið upp á ýmsu – þeir segja til dæmis að ekki sé hægt að skipta um formann án þess að fulltrúar allra landa komi saman til fundar í eigin persónu.

Eðli málsins samkvæmt getur það ekki orðið þar sem næsti fundur átti að verða í Rússlandi. Öllum ráðum er hins vegar beitt til að setja Norðurskautsráðið á hliðarspor við núverandi aðstæður með því að skapa efasemdir um formreglur.

Það þarf þó ekki neina snillinga í herstjórnarlist til átta sig á hvað fyrir Rússum vakir. Rússland er stærsta noðurslóðaríkið og hagsmunir Rússa á svæðinu eru gífurlega miklir.

Þótt ráðamenn í Moskvu hafi látið vel af Norðurskautsráðinu og hlutverki þess, ráðið er samstarfsvettvangur um umhverfismál, sjávarlífríkið, öryggi sjófarenda og margt annað mikilvægt, hafa verkefni hernaðarlegs eðlis ávallt blundað undir niðri samhliða bráðnun íssins í norðri.

Í nýja stefnuskjalinu er ekki lengur minnst á Norðurskautsráðið og ekki heldur aðra samstarfsvettvanga eins og þrengri „Arctic Five“ hópinn, Rússar hafa einnig átt aðild að honum. [Þarna er um að ræða löndin fimm sem eiga land að Norður-Íshafi.]

Þess í stað gera Rússar því skóna að stofna til lokaðs samstarf á eigin vegum við ríki utan norðurslóða. Það er ekki erfitt að geta sér til um að þar sé um að ræða opið boð til Kínverja, sem eru fjarri norðurslóðum en hafa lagt sig mjög fram um að lýsa norðurslóðum sem kínversku hagsmunasvæði.

Þegar litið er til hernaðaruppbyggingar Rússa á norðurslóðum og endurnýjunar flugskeytastöðva þeirra, skotstöðva fyrir ofurhraðfleyg skeyti, er erfitt að taka því ekki af alvöru sem kemur frá Moskvu.

Fyrir stríðið í Úkraínu var einnig rætt um aukin hernaðarleg umsvif á svæðinu svo það er ekki nýmæli. Hinu þarf á hinn bóginn að svara þegar Rússar móta alveg nýja stefnu sem stefnir norðurslóðum í hættu vegna sóknaráforma.

Vestræna varnarbandalagið NATO hefur sem slíkt ekki mótað sér norðurslóðastefnu. Bandaríkjamenn hafa ásamt Dönum og Norðmönnum verið þjóðirnar sem hafa hugað að öryggi á svæðinu.

Nú þegar Rússar færast nær Kínverjum, einnig á norðurslóðum, er ekki um annað að ræða en hvetja NATO til að móta eins hratt og verða má stefnu fyrir norðurslóðir.

Danir eru að hefja viðræður um nýtt varnarsamkomulag flokkanna og þar mun Eystrasalt gegna umtalsverðu hlutverki, einnig eftir að Finnar eru gengnir í NATO og Svíar laga sig æ meira að bandalaginu.

Það er ljóst að Danir komast ekki heldur hjá því að huga enn meira að hlut Grænlands í þessu þótt það sé kostnaðarsamt. Nú er bæði skortur á skipum og eftirliti á stórum svæðum sem eru óaðgengileg bæði ofan- og neðansjávar.

Í raun höfum við ekki hugmynd um hvað Rússar aðhafast á svæðinu – einnig með kjarnorkuknúnum kafbátum sínum. Þess vegna neyðumst við til að setja norðurslóðir í forgang. Rússar hafa lagt sín spil á borðið. Þar er ekkert gott í boði, ekki heldur fyrir danska konungsríkið.

KRISTIAN MOURITZEN, sérfræðingur Berlingske í alþjóða- og öryggismálum er höfundur leiðarans en af hálfu ritstjórnarinnar er tekið fram að skoðanir hans lýsi afstöðu Berlingske.

 

Birt síðdegis sunnudaginn 9. apríl, páskadag

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …