Home / Fréttir / Berlingske Tidende: Macron getur ekki (heldur) gengið á vatni

Berlingske Tidende: Macron getur ekki (heldur) gengið á vatni

Emmanuel Macron
Emmanuel Macron

„Það er erfitt að sjá hvernig Emmanuel Macron, forseta Frakklands, hefði getað vegnað betur. Fyrir fáum mánuðum var hann næstum óþekktur utan heimalands síns. Honum tókst ekki aðeins að vinna sannfærandi sigur í forsetakosningunum heldur bendir nú allt til þess að eftir síðari umferð þingkosninganna nú á sunnudaginn ráði hann yfir einstaklega góðum meirihluta á franska þinginu. Þetta er ekki slæmt þegar til þess er litið að flokkur hans, La République en Marche (LREM), er aðeins um það bil eins árs.“

Á þessum orðum hefst leiðari danska blaðsins Berlingske Tidende í tilefni af síðari umferð frönsku þingkosninganna sunnudaginn. Þau endurspegla almennt viðhorf til velgengni Macrons á frönskum stjórnmálavettvangi og blaðið heldur áfram:

„Macron hefur unnið góða sigra með því að bjóða Frökkum annan kost en hefðbundnu flokkana, það er sósíalista sem hafa næstum horfið vegna kosninganna og íhaldsmenn, Les Républicains, sem hljóta að hafa óbragð í munni vegna úrslitanna þótt þeir standi heldur betur að vígi heldur en þeir rauðu.

Kjósendur hafa valið vinsamlega ESB-stefnu Macrons frekar en þjóðernis-íhaldssemi Þjóðfylkingar Marine Le Pen sem mótast af miklum efasemdum í garð ESB og innflytjenda.

Forsetinn á þó örugglega eftir að þarfnast stuðnings hvers einasta kjósanda ætli hann að sameina Frakkland og einkum ætli hann að hrinda umfangsmiklum umbótum sínum í framkvæmd.

Macron hefur áform um að breyta frönskum vinnumarkaði sem er frægur fyrir ósveigjanleika sinn, við mótun stefnu sinnar þar hefur hann hrifist mjög af því hvernig staðið er að málum í Danmörku. Óteljandi ástæður eru til að óska honum velgengni við framkvæmd stefnu sinnar, hitt er þó staðreynd að Frakkar eru sérstaklega frægir fyrir að berjast hart gegn næstum hverri einustu breytingu á vinnumarkaðnum. Þá ætti Macron að minnast þess hvernig öðrum vinsælum forseta, Barack Obama, vegnaði. Gífurleg hrifning var þegar Obama var nýkjörinn forseti Bandaríkjanna – ekki aðeins á Vesturlöndum heldur víða um heim þar sem lítil ánægja hafði ríkt vegna stefnu forvera hans. George W. Bush.

Margir áttu eiginlega von á að Obama mundi aflétta fjármálakreppunni með annarri hendi á sama tíma og hann kæmi á friði í Mið-Austurlöndum með hinni. Allt gerðist þetta um leið og hann gerði jörðina að öruggum dvalarstað án hernaðaríhlutunar eða myrkraverka leyniþjónustumanna. Að Obama gæti gengið á vatni.

Allir vita að mál fóru á annan veg. Enginn trúir um þessar mundir í alvöru að nokkur árangur náist í viðleitninni til að skapa frið milli Ísraela og Palestínumanna. Rússar nýttu sér hviklyndi Obama til að breyta framvindu borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi. Kínverjar sýna meiri hernaðarlega tilburði núna en þegar Obama komst til valda. Þá var afhjúpað á vandræðalegasta hátt í stjórnartíð Obama að hann bar sinn hluta ábyrgðarinnar á hlerunum bandarísku leyniþjónustustofnananna á bandamönnum þeirra, jafnt almennum borgurum og kanslara Þýskalands.

Það er fagnaðarefni að Frakkar hafa ákveðið að leggja framtíðarsýn Macrons lið. Það er einnig fagnaðarefni að yfirgnæfandi líkur eru á að hann fái nú óvenjulega öflugt umboð í þingkosningum til að framkvæma hana.  Fyrir Macron væri þó skynsamlegt að muna að hann getur ekki gengið á vatni – jafnvel þótt margir virðist trúa að hann geti það. Hlutverk hans sem forseta er að sameina alla Frakka. Einnig hlýtur maður að mega vona að hann stuðli jafnframt að því að sameina Evrópumenn.“

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …