Home / Fréttir / Berlínar-hryðjuverkamaðurinn felldur af ítölsku lögreglunni í Mílanó

Berlínar-hryðjuverkamaðurinn felldur af ítölsku lögreglunni í Mílanó

Þarna var hryðjuverkamaðurinn frá Berlín felldur.
Þarna var hryðjuverkamaðurinn frá Berlín felldur.

Anis Amri, Túnisinn sem grunaður er um að hafa ekið flutningabíl inn í jólamarkað í Berlín að kvöldi mánudags 19. desember, var skotinn til bana í skotbardaga við ítölsku lögregluna í Mílanó aðfaranótt föstudags 23. desember.

Marco Minniti, inannríkisráðherra Ítalíu, skýrði frá þessu að morgni föstudagsins á blaðamannafundi í Róm. Sagði hann „hafið yfir vafa“ að Amri hefði verið felldur, fingraför sönnuðu það.

Til átaka kom milli tveggja lögreglumanna og Amri um klukkan 02.00 að ísl. tíma föstudaginn 23. desember (03.00 að staðartíma). Annar lögreglumannanna særðist þegar Amri skaut á hann.

Lögreglumennirnir höfðu stöðvað bílinn og beðið grunsamlegan ökumanninn um skilríki. Í stað þess að sýna þau dró hann skammbyssu úr bakpoka sínum og skaut annan lögreglumannanna í öxlina, hinn skaut Amri þá til bana. Fleiri særðust ekki. Særði lögreglumaðurinn er á góðum batavegi.

Ítalska fréttastofan Ansa segir að Amri hafi komið til Tórínó á Ítalíu frá Frakklandi og ekið þaðan til Mílanó þangað sem hann kom um 01.00 að staðartíma (miðnætti ísl. tími). Hann var felldur í skotbardaga á torgi fyrir framan Sesto San Giovanni brautarstöðina sem er í raun útborg Mílanó þótt hún sé talinn hluti af henni.

Þýska lögreglan hét þeim 100.000 evrum sem kæmi upp um Anis Amri eftir að fingraför hans auk skjala um dvalarleyfi hans í Þýskalandi fundust í flutningabílnum sem varð 12 manns að aldurtila í Berlín og særði um 50, suma lífshættulega.

Tekist hefur að greina fjóra útlendinga í hópi fórnarlambanna 12, einn frá Tékklandi, einn frá Ítalíu og einn frá Ísrael auk pólska bílstjórans sem var drepinn eftir að árásarmaðurinn rændi bíl hans.

Uppfært kl. 18.30

Hér að ofan er sagt að Amri hafi ekið í bifreið til Mílanó. Þetta er ekki rétt. Ítalska fréttastofan Ansa segir að hann hafi komið með lest frá Frakklandi til Tórínó og skipt þar um lest til aðalbrautarstöðvarinnar í Mílanó þaðan sem hann hefði síðan haldið til stöðvarinnar Sesto San Giovanni. Hann hafi staðið utan við hana þegar lögreglumennirnir báðu hann um skilríki.

Marco Minniti innanríkisráðherra sagði hann hefði „samstundis dregið upp byssu“ og skotið á ítölsku lögreglumennina tvo.

Lögreglumaðurinn Cristian Movio særðist á öxl en ekki lífshættulega. Luca Scata, sem hefur aðeins starfað níu mánuði í lögreglunni, svaraði skotárás Amris og drap hann.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …