
Þýska ríkisstjórnin boðar til leiðtogafundar í Berlín sunnudaginn 19. janúar í því skyni að sætta stríðandi öfl í Líbíu. Tilraunir til þess hafa árangurslaust verið gerðar undanfarin ár á fundum í Frakklandi og á Ítaliu,
Nú er talið brýnna en áður að finna friðsamlega lausn. Fyrir því eru tvær meginástæður (1) átökin í Líbíu ná nú til höfuðborgarinnar Trípólí en í apríl 2019 réðist Khalifa Haftar, hershöfðingi og stjórnarandstæðingur, gegn þjóðarráði landsins (GAN) þar sem Faïez Sarraj er í forsæti með viðurkenningu alþjóðasamfélagsins; (2) aukin erlend íhlutun í átökin eftir að Tyrkir tilkynntu í byrjun janúar að þeir myndu leggja GAN í Trípólí lið ásamt Ítölum en Rússar, Egyptar og Sádi-Arabar styðja Haftar.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti fimmtudaginn 16. janúar að hann ætlaði að þiggja boð um að sækja fundinn í Berlín við lítinn fögnuð Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og Sergeis Lavrovs, utanríkisráðherra Rússlands. Rússar og Tyrkir hafa látið að sér kveða í tómarúmi í Líbíu vegna afskiptaleysis Bandaríkjastjórnar og vanmáttar ESB-ríkja.
Fulltrúar 11 ríkja sitja fundinn í Berlín. Ríkin eru aðilar að fjórum alþjóðasamtökum, Sameinuðu þjóðunum, ESB, Arababandalaginu og Afríkusambandinu. Takist ekki að finna lausn innan Líbíu óttast menn að átökin þar raski svæðisbundnu jafnvægi í Norður-Afríku. Fyrsta skrefið yrði að koma á vopnahléi og síðan að sjá til þess að bann við vopnasölu til landsins sem sett var árið 2011 sé virt. Loks er óhjákvæmilegt að koma varanlegri skipan á stjórnarhætti í landinu til að tryggja raunverulega þjóðarsátt.
Á fundinum í Berlín beinist athygli ekki síst að því hvort aðildarríkjum ESB tekst að miðla málum. Þau standa frammi fyrir því að Tyrkir styðja GAN og Sarraj forsætisráðherra en Rússar standa að baki Haftar. Mánudaginn 13. janúar var Haftar í Moskvu þar sem lagt var hart að honum að semja um vopnahlé. Hann hafnaði því Rússum til mikillar mæðu. Hann tekur sér stöðu gegn allri viðleitni ESB-ríkja til að stilla til friðar.
Fyrir ESB-ríki er mikið í húfi að koma í veg fyrir sambærilega upplausn í Líbíu og orðið hefur í Sýrlandi með Tyrki og Rússa sem meginbakhjarla stríðandi fylkinga og jarðveg fyrir hryðjuverkasamtök eins og Ríki íslams. Þá er talið að um 700.000 manns bíði færis í Líbíu eftir að komast yfir Miðjarðahaf sem flótta- og farandfólk í Evrópu.
Spenna hefur magnast milli Tyrkja og Grikkja vegna ástandsins í Líbíu og birtist hún nú í harðnandi ágreiningi um miðlínur milli landanna á hafi úti. GAN-stjórnin í Líbíu og stjórn Tyrklands gerðu samning sín á milli 27. nóvember 2019 um skiptingu hafsvæða Tyrkjum í vil en á kostnað Kýpverja og Grikkja. Haftar er andvígur þessum samningi. Hann fór til Aþenu föstudaginn 17. janúar til að árétta stuðning sinn við sjónarmið Grikkja.
Heimild: Le Monde