
Nú hefur verið tilkynnt að nýr alþjóðaflugvöllur í Berlín verði loks opnaður 31. október 2020. Ætlunin var að opna Berlín-Brandenburg-flugvöllinn í mars 2011 en þetta hefur tafist í næstum áratug vegn alls kyns vandræða og hneyksla.
Yfirvöld hafa nú veitt heimild til að hefja rekstur flugvallarins 14 árum eftir að framkvæmdir hófust við hann. Völlurinn kemur í stað Tegel- og Schönfeld-flugvalla.
Berlín-Brandenburg-völlurinn nefnist einnig Willy Brandt-flugvöllurinn eftir fyrrverandi Þýskalandskanslara og borgarstjóra í Vestur-Berlín.
Nýi flugvöllurinn er fyrir sunnan Schönfeld og hafa framkvæmdir við hann orðið að þjóðarhneyksli í Þýskalandi eftir að sex sinnum hafa verið gerðar misheppnaðar tilraunir til að opna hann.
Helstu vandamálin voru þessi:
- Það varð að endurgera upphaflegu teikningarnar af flugstöðvarbyggingunni eftir Meinhard von Gerkan til að auka þar verslunarrými.
- Byggingarverktakinn varð gjaldþrota.
- Eldvarnakerfið reyndist gallað og kostnaður við verkið margfaldaðist.
- Spillingarhneyksli varð til þess að settar voru fram ásakanir um að uppljóstrari hefði veikst vegna eiturs í kaffi hans.
- Fjölgun flugferða til Berlínar leiddi í ljós að flugvöllurinn yrði ekki nógu stór þegar ætlunin var að opna hann.
Nú hefur öryggisfyrirtækið TÜV vottað að flugvöllurinn standist allar kröfur. Næsta skref er að láta reyna á öll kerfi vallarins og gefa út leyfi til flugs þangað en embættismenn segja að ekkert ætti að hindra að opna megi hann í haust.
Heimild: BBC