Home / Fréttir / Belgíska lögreglan handtók menn grunaða um hryðjuverkaáform í Brussel

Belgíska lögreglan handtók menn grunaða um hryðjuverkaáform í Brussel

Lögregluaðgerðir í Brussel.
Lögregluaðgerðir í Brussel.

Belgíska lögreglan handtók þriðjudaginn 29. desember í Brussel tvo menn sem grunaðir eru um að undirbúa árás í borginni að kvöldi gamlársdags 31. desember eða á nýársdag 1. janúar 2016. Saksóknari sagði rannsókn lögreglu hafa leitt í ljós „áform um alvarlegar árásir á ýmsa táknræna staði“.

Mennirnir voru handteknir eftir húsleitir í borgunum Brussel og Liége auk þess sem lögregla fór um flæmska Brabant-héraðið. Þeir eru sakaðir um að undirbúa árás í Brussel, líklega á gamlársdagskvöld.

Annar hinna grunuðu var sakaður um að leiða og kalla fólk til hryðjuverkahóps og hinn fyrir að taka þátt í slíkum hópi sem hefði árás á prjónunum. Nöfn hinna grunuðu voru ekki nefnd né kyn þeirra.

Við húsleitirnar fann lögregla þjálfunarbúninga hermanna, áróðursefni frá hópi sem kenndi sig við Ríki íslams og rafrænt efni. Hvorki fundust vopn né sprengjur. Sex voru kallaðir í yfirheyrslu en fjórir látnir lausir að henni lokinni.

Saksóknarinn sagði að ekki væru tengsl milli rannsóknar þessa máls og hryðjuverksins í París 13. nóvember 2015.

Abdelhamid Abaaoud sem talið er að stjórnað hafi árásinni í París og Salah Abdelsam sem er á flótta eftir hana tengdust Molenbeek-hverfinu í Brussel – samastað öfgasinnaðra múslima.

Brahim Abdeslam og Bilal Hadfi sem sprengdu sig í loft upp í París bjuggu í Brussel. Belgíska lögreglan hefur alls handtekið níu manns í tengslum við árásina í París.

Í næstum eina viku eftir 13. nóvember gilti hæsta öryggis- og viðbúnaðarstig í Brussel. Truflaði það almenningssamgöngur, skólastarf og aðra þætti daglegs lífs í borginni.

Í fyrri viku kynnti lögreglan í Vínarborg að hún hefði leynilega vitneskju um að á milli jóla og nýárs kynni að verða gerð hryðjuverkaárás í Evrópu.

 

Heimild: DW/de

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …