Home / Fréttir / Belgía: Lausnarbeiðni ráðherra vegna klúðurs við gæslu vígamanns hafnað

Belgía: Lausnarbeiðni ráðherra vegna klúðurs við gæslu vígamanns hafnað

 

Koen Keens dómsmálaráðherra, Charles Michel forsætisráðherra og Jan Jambon innanríkisráðherra Belgíu.
Koen Geens dómsmálaráðherra, Charles Michel forsætisráðherra og Jan Jambon innanríkisráðherra Belgíu.

Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, hafnaði fimmtudaginn 24. mars lausnarbeiðni Jans Jambons innanríkisráðherra og Koens Geens dómsmálaráðherra. Forsætisráðherrann taldi ráðherraskipti ekki heppileg þegar hæsta hættustig gilti í landinu og enn væri leitað að tveimur ódæðismönnum vegna hryðjuverkanna þriðjudaginn 22. mars.

Ósk ráðherranna um lausnarbeiðni má einkum rekja til þess sem fram hefur komið um Ibrahim El Bakraoui, sem sprengdi sig í loft upp í innritunarsal flugstöðvarinnar í Brussel. Jan Jambon sagði við belgíska dagblaðið Le Soir að tvenn mistök hefðu verið gerð í máli Bakraouis annars vegar af hálfu dómsmálaráðuneytisins og hins vegar af hálfu tengifulltrúa í belgíska sendiráðinu í Tyrklandi og snertu þau bæði innanríkis- og dómsmálaráðuneytin.

Ákvörðunin um að belgísku ráðherrarnir sætu áfram þrátt fyrir lausnarbeiðni sína var kynnt um hádegi fimmtudaginn 24. mars  þegar ráðherrarnir komu saman til fundar þar sem þeir ræddu meðal annars þá yfirlýsingu sem Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti gaf miðvikudaginn 23. mars um að Ibrahim El Bakraoui hefði verið vísað á brott frá Tyrklandi sumarið 2015 og tilkynning um það hefði verið sent til belgískra stjórnvalda.

Erdogan gaf yfirlýsingu sína í Rúmeníu þar sem hann var í opinberri heimsókn 23. mars. Hann sagði að Ibrahim El Bakraoui hefði verið handtekinn 15. júní í Gaziantep, 50 km frá Sýrlandi. Tyrkir höfðu hann einn mánuð í haldi en sendu hann síðan að hans ósk til Amsterdam. Tyrknesk yfirvöld skýrðu yfirvöldum í Belgíu og Hollandi frá þessari ráðstöfun og frá hættunni sem kynni að stafa af þessum einstaklingi sem lá undir grun um að vera múslímskur vígamaður. Í hvorugu landinu var brugðist af alvöru við upplýsingum frá Tyrkjum. Fimmtudaginn 24. mars staðfesti tyrkneskur ráðuneytismaður að auki að Tyrkir hefðu handtekið El Bakraoui tvisvar sinnum.

Í Le Soir segir að fyrir utan þetta hafi belgísk lögregluyfirvöld haft mikil kynni af El Bakraoui. Hann var dæmdur í 10 ár árið 2010 fyrir ýmis lögbrot, þar á meðal fyrir að hafa skotið á lögreglu úr Kalasjnikov-vélbyssu. Honum var síðan sleppt á skilorði samkvæmt úrskurði skilorðsnefndar þrátt fyrir neikvæða umsögn fangelsisyfirvalda. Eitt af skilyrðunum var að El Bakraoui mætti ekki vera lengur en einn mánuð utan Belgíu og hann átti að gefa sig mánaðarlega fram við rétt yfirvöld.

El Bakraoui fór að þessum skilyrðum þar til í júní 2015. Síðan hvarf hann og var handtekinn af Tyrkjum við landamæri Sýrlands 15. júní 2015. Hann var síðan sendur til Amsterdam en eftir það var hann aldrei kallaður fyrir yfirvöld. Miðvikudaginn 23. mars greip dómsmálaráðherra Belgíu til þeirrar varnar að á þessum tíma hefði ekki enn verið vitað um tengsl hans við hryðjuverkamenn. Le Soir segir að það sé holur hljómur í þessari vörn þegar vitað sé að hann hafi verið tekinn höndum við landamæri Sýrlands.

Það er ekki fyrr en að einn mánuður er liðinn frá því að El Bakraoui kom til Amsterdam sem belgíska lögreglan staðfestir að hann standi ekki við skilorðið. Þrátt fyrir það gat hann farið ferða sinna án opinberra afskipta þar til hann framdi voðaverkið 22. mars 2016.

Le Soir segir þetta mál allt svo alvarlegt að erfitt sé að sjá langt framhald á ríkisstjórnarsetu ráðherranna tveggja þótt forsætisráðherrann hafi hafnað lausnarbeiðni þeirra að þessu sinni jafnvel þótt embættismenn í dómsmálaráðuneytinu telji að það sé á verksviði sveitarstjórna að fylgjast með þeim sem eru á skilorði en ekki ráðuneytisins.

 

.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …