Home / Fréttir / Belgía: Enn einn handtekinn vegna hryðjuverksins í París

Belgía: Enn einn handtekinn vegna hryðjuverksins í París

Mohamed Abrini - er hann maðurinn með hattinn?
Mohamed Abrini – er maðurinn með hattinn.

Belgíska lögreglan handtók Mohamed Abrini (31 árs) síðdegis föstudaginn 8. apríl. Hann játaði laugardaginn 9. apríl aðild að  hryðjuverkunum í París 13. nóvember 2015. Þá segist hann einnig vera maðurinn með hattinn sem sást á Brussel-flugvelli 22. mars þegar hryðjuverk var framið þar. Hans hefur verið leitað í fimm mánuði og fannst loks á Albert-torgi í Anderlecht-hverfinu í Brussel.

Mohamed Abrini fæddist 27. desember 1984. Hann ólst upp í Molenbeek-hverfinu í Brussel. Hann á þrjár bræður og tvær systur. Um árabil eða frá 17 ára aldri til 2015 stundaði hann afbrot af ýmsu tagi, hann nam logsuðu en lauk aldrei prófi. Hann hefur alls verið kærður 21 og setið oft í fangelsi fyrir þjófnað, fíkniefnasölu, ofbeldi og flutning á vopnum.

Til er mynd af honum sem tekin var tveimur dögum fyrir árásirnar í París. Þar sést hann um klukkan 19.00 með Salah Abdeslam, sem var handtekinn í Molenbeek 18. mars, á bensínstöð við hraðbrautina frá Brussel til Parísar.

Þá hafa fundist lífsýni og rafræn gögn sem sýna að hann hafi verið í íbúð við Dries-götuna í Forest í Belgíu sem var felustaður Salah Abdeslams.

Mohamed Abrini er auk þess grunaður um að hafa farið til Sýrlands. Souleymane, yngri bróðir hans, gekk til liðs við Ríki íslams í janúar 2014 og týndi lífi átta mánuðum síðar. Hinn látni var í sömu bardaga-sellu og ’Abdelhamid Abaaoud sem talinn er höfuðpaurinn að baki árásunum í París.

Áður en sprengingin varð í flugstöðinni í Brussel að morgni 22. mars sáust þrír menn ganga hlið við hlið með töskuvagna inn í stöðina, tveir sprengdu sig í loft upp. Hinn þriðji ljósklæddi maðurinn með hattinn eins og hann er kallaður hvarf af vettvangi og skildi sína sprengju eftir. Maður með hattinn hefur síðan verið í felum og á flótta undan lögreglunni.

Eftir handtökuna á Mohamed Abrini sögðu margir fjölmiðlamenn að maðurinn með hattinn hefði fundist. Réttmæti þessara frétta var  dregið í efa meðal annars með þeim rökum að Abrini er 175 cm á hæð en maðurinn með hattinn talinn vera 190 cm.

Belgíski ríkissaksóknarinn sagði að Abrini hefði játað eftir að lögð voru fyrir hann ýmis gögn til sönnunar sekt hans. Hann sagðist hafa fleygt vestinu í rustatunnu og síðan selt hatt sinn.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …