Home / Fréttir / Barist við lygar og áróður rússneskra ríkismiðla

Barist við lygar og áróður rússneskra ríkismiðla

 

Margarita Simomjan, áróðurssjóri Pútíns.
Margarita Simomjan, áróðurssjóri Pútíns.

Lygin sem birtist í rússneskum fjölmiðlum vekur undrun á Vesturlöndum. Húr er liður í áróðursstríði stjórnvalda í Moskvu gagnvart umheiminum. Í sænska blaðinu Dagens Nyheter (DN) birtist laugardaginn grein sem meðal annar er reist á samtali við Alexeij Kovaljov sem fyrir tveimur árum gegndi lykilstöðu í ríkis-fréttastofunni RIA-Novosti og valdi greinar úr erlendum fjölmiðlum til þýðinga á rússnesku, greinar sem rötuðu meðal annars inn á borð Vladimírs Pútíns forseta.

Kovaljov yfirgaf Rússland fyrir tveimur árum og er nú í krossferð gegn fyrrverandi vinnuveitendum sínum. Hann heldur úti blogg-síðu í þeim tilgangi að afhjúpa lygar í rússneskum fjölmiðlum.

„Lygin er svo mikil að ég hef aðeins tíma til að benda á brot hennar. Hún birtist í stórum miðlum, sjónvarpsstöðvum sem ná til milljóna manna,“ sagði Kovaljov við blaðamann DN  í London þar sem hann dvaldist þá stundina á leið með fjölskyldu sína til Kýpur. Hann segist ekki hafa hugmynd um hvenær hann snúi að nýju til Moskvu.

Í rússneskum fjölmiðlum birtast fréttir á borð við þær að í Úkraínu séu ungabörn krossfest og mæður þeirra neyddar til að horfa á þau deyja auk þess sem Bandaríkjamenn eru sakaður um að beita utanríkisráðuneyti sínu gegn stöðugleika í Rússlandi með því að boða ágæti samkynhneigðar.

ESB hefur nýlega komið á fót níu manna greiningarhópi til að afhjúpa fjölmiðlalygina í Rússlandi. Í Eistlandi undirbúa stjórnvöld eigin sjónvarpsstöð til útsendingar á efni á rússnesku til mótvægis við stöðvarnar í Moskvu. Í Úkraínu hefur verið gripið til víðtækra aðgerða í netheimum og annars staðar til að kæfa lygaáróðurinn frá stóra nágrannanum.

Alexej Kovaljov er einn hinna mörgu í Rússlandi sem hefur fengið sig fullsaddan af lygum og áróðri. Milli 15.000 og 60.000 manns lesa nú gagnrýnina á stjórn Rússlands sem hann skrifar á netið þótt hann hafi ekki látið í sér heyra þar nema í tvo mánuði. Hann skrifar aðeins um lygar og blekkingar í rússneskum fjölmiðlum.

Það getur verið um efni eins og það „að 96% af lesendum New York Daily News setji Pútín ofar en Obama“ – þar kom í ljós að „lesendurnir“ voru rússnesk net-tröll. Eða um það hvernig RT-sjónvarpsstöðin falsar tölur um eigið áhorf.

„Þetta hófst hjá mér með nokkrum færslum á Facebook. Sumar þeirra komust á flug. Þá hóf ég að halda úti eigin bloggi og það hefur stækkað stig af stigi, áhuginn er greinilega mikill. Ég er að drukkna í tilboðum frá fólki sem vill vinna fyrir blogg-síðuna en ég stend enn einn að henni,“ segir Kovaljov við blaðamann DN.

Barátta Kovaljovs gegn áróðrinum er að hluta persónuleg og hann þiggur engin laun fyrir hana. Í hans huga var vegið að starfsheiðri hans á RIA-Novosti þegar Margarita Simomjan varð yfirmaður Rossija Segedonja 31. desember 2013. Rossija Segedonja er risavaxin áróðursstofnun sem nær meðal annars til RIA-Novosti sem vinnur efni á rússnesku og RT-sjónvarpsstöðvarinnar sem sendir út efni á ensku.

Breytinguna á yfirstjórninni mátti rekja til upphafs mótmælanna í Kænugarði síðla árs 2013 en þá ákvað Pútín að gelda RIA-Novosti. Nokkrum mánuðum síðar höfðu útsendarar Kremlverja tekið stjórn stofnunarinnar í sínar hendur.

Í þeirra hópi var sjónvarpsmaðurinn Dmitrij Kiseljov sem gerður var að yfirmanni fjölmiðlasviðs áróðursstofnunarinnar, þar á meðal Sputnik news, vefsíðu á ensku og öðrum tungumálum sem hefur það hlutverk að boða „rússneska sýn“ á heiminn. Kiseljov hefur verið líkt við Donald Trump í fjölmiðlaheiminum vegna yfirlýsingagleði hans, meðal annars um að Rússar geti „breytt Bandaríkjunum í geislavirkan úrgang“ og að brenna eigi hjarta samkynhneigðra þegar þeir falla frá.

Sjónvarp er mikilvægasta upplýsingalind 85% Rússa þótt hlutur netsins aukist. Natalja Zorkaja, forstjóri stjórnmáladeildar hins óhlutdræga könnunarfyrirtækis Levada, segir að þess vegna hafi sjónvarpsáróður úrslitaþýðingu og með honum megi á skömmum tíma breyta almenningsálitinu eins og gert hafi verið vegna hernaðaríhlutunarinnar í Sýrlandi. Í upphafi hafi lítill minnihluti stutt hana en á fáeinum vikum breyttist hann í meirihluta.

Blaðamaður DN, Ingmar Nevéus, höfundur greinarinnar, starfaði á sínum tíma sem fréttaritari í Moskvu. Hann segir Rússa hafa öldum saman hrifist af samsæriskenningum. Í því samandi nefnir hann atvikið frá sumrinu 2014 þegar farþegavél Malaysia Airlines (MH17) var grandað yfir Úkraínu. Rússneskir fjölmiðlar hafi birt ýmsar kenningar af því tilefni. Því var meðal annars haldið fram að þetta hefði verið misheppnað morðtilræði við Pútín, að úkranískir flugumferðarstjórar hefðu beint MH17 inn yfir átakasvæðið eða að úkranísk hervél hefði skotið Boeing-vélina niður til að geta skellt skuldinni á Rússa.

 

Þegar hollensk rannsóknarskýrsla um örlög MH17 var birt haustið 2015 var staðfest það sem flestir á Vesturlöndum vissu frá upphafi, að aðskilnaðarsinnar höfðu skotið vélina niður með rússneskri Buk-skotflaug. Þá var alls konar orðrómi komið á kreik. Tilgangurinn var ekki síst að ýta undir grunsemdir Vesturlandabúa um að hollenska rannsóknarnefndin hefði staðið illa að verki. Í því skyni var meðal annars efnt til mikils blaðamannafundar í Moskvu til að sanna að Buk-flaug hefði ekki getað grandað vélinni.

 

Utan Rússlands og ekki síst í Svíþjóð, að mati blaðamannsins, hefðu margir hallast að þeirri skoðun að líklega væri hið rétta um örlög MH17 að finna á einhverju gráu svæði þótt ekkert slíkt svæði væri í raun fyrir hendi í málinu. Þetta sé dæmi um hvernig viðleitni rússnesku áróðursvélarinnar til að sá efasemdum og krefjast síðan að Rússar njóti vafans beri árangur.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …