Home / Fréttir / Barentshaf: Greenpeace gegn Statoil eftir að hafa fengið dæmdar bætur frá Rússum

Barentshaf: Greenpeace gegn Statoil eftir að hafa fengið dæmdar bætur frá Rússum

Skip Greenpeace við borpall Statoil í Barentshafi.
Skip Greenpeace við borpall Statoil í Barentshafi.

Í fyrri viku var ríkisstjórn Rússlands dæmd til að greiða Greenpeace skaðabætur vegna töku á skipi samtakanna Arctic Sunrise í austurhluta Barentshafs haustið 2013. Föstudaginn 21. júlí var skipið komið í Barentshaf að nýju til mótmæla við borpall norska ríkisolíufélagsins Statoil.

Ellefu aðgerðasinnar fóru á gúmmíbáti með mótmælaborða að Songa Enabler olíuborpallinum um 275 km fyrir norðan Noreg í Barentshaf.

„Við gerum þetta vegna þess að norska ríkisstjórnin virðist ekki skilja hvað henni ber að gera í samræmi við Parísar-samkomulagið,“ sagði Sune Scheller, forystumaður mótmælenda við Reuters-fréttastofuna. „Meginhluti af olíu og gasi verður að geyma áfram í jörðinni ef við ætlum að verja heimili okkar gegn afleiðingum loftslagsbreytinganna.“

Alls taka 29 aðgerðasinnar frá 19 ólíkum löndum þátt í mótmælunum þar á meðal frá Suður-Afríku, Nýja-Sjálandi, Búlgaríu, Spáni, Finnlandi og Svíþjóð.

Rússar hafna niðurstöðu alþjóðlegs gerðardóms sem hefur dæmt rússnesk stjórnvöld til að greiða Greenpeace bætur fyrir að hafa gert Arctic Sunrise4 sem skráð er í Hollandi upptækt við olíuborpall GazpromNeft’s Prirazlomnoje í austurhluta Barentshafs.

Rússneskir öryggislögreglumenn handtaka Greenpeace-aðgerðasinna.
Rússneskir öryggislögreglumenn handtaka Greenpeace-aðgerðasinna.

Rússneskir öryggislögreglumenn tóku skipið á alþjóðlegu hafsvæði í september 2013 eftir að það hafði verið notað við mótmælaaðgerðir við olíuborpallinn. Áhöfn skipsins 28 manns og auk þess tveir blaðamenn voru tvo mánuði í haldi, fyrst í Múrmansk og síðan í St. Pétursborg. Skipið var níu mánuði í vörslu rússneskra yfirvalda í Múrmansk.

Alþjóðagerðardómurinn kom saman í Vínarborg og felldi þriðjudaginn 18. júlí þann dóm að Rússar yrðu að greiða Hollendingum 5,4 milljón evrur í skaðabætur fyrir að taka skipið og áhöfnina.

Artjom Kozhin, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins sagði fimmtudaginn 20. júlí að rússnesk yfirvöld hörmuðu niðurstöðu gerðardómsins því að hún yrði öðrum hvatning til ólögmætra aðgerða í efnahagslögsögu þjóða og á landgrunni þeirra. Í henni fælist „réttlæting“ á svonefndum friðsamlegum mótmælum.

Gerðardómurinn starfar á grundvelli hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í yfirlýsingu Greenpeace í tilefni af dómsniðurstöðunni segir að óljóst sé hvort Rússar muni virða hana. Rússneska ríkisstjórnin hafi á öllum stigum málsins neitað að koma að því. Hún hafi einnig hafnað kröfu um greiðslu síns hluta kostnaðar við störf gerðardómsins.

Skipið Arctic Sunrise var  í  Tromsø í Noregi áður en það hélt til Barentshafs til að mótmæla olíuvinnslu á vegum norska ríkisolíufélagsins Statoil. Þetta er fyrsta aðgerð með skipinu frá því að Rússar tóku það í september 2013.

Truls Gulowsen, forstöðumaður Greenpeace í Noregi, segir við Barents Observer að  Statoil standi nú fyrir umdeildustu olíuvinnslu á jarðarkringlunni. Á vegum olíufélagsins sé farið norðar, nær hafísröndinni og viðkvæmum heimkynnum sjófugla og lengra inn á óþekktar slóðir en nokkru sinni hafi verið gert. Félagið taki ekkert tillit til viðvarana umhverfisyfirvalda í Noregi eða mótmæla Greenpeace sem leitað hafi til dómstóla til að hindra boranir Statoil á þessum slóðum.

 

 

Skoða einnig

NATO verður að móta norðurslóðastefnu til að svara umsvifum Rússa frá Kólaskaga

Liselotte Odgaard er Senior Fellow, Hudson Institute, Washington, D.C. Greinin sem hér er sagt frá …