Home / Fréttir / Barentshaf: Rússar æfa hæfni við að finna torséða kafbáta og granda þeim

Barentshaf: Rússar æfa hæfni við að finna torséða kafbáta og granda þeim

Um borð í rússneskum langdrægum eldflaugakafbáti
Um borð í rússneskum langdrægum eldflaugakafbáti

Á sama tíma og hermenn frá Noregi, Bretlandi og Bandaríkjunum eru að æfingum á Finnmörk í Norður-Noregi hafa Rússar látið reyna á hæfni sína til að leynast neðansjávar með því að senda kafbáta til æfinga.

Þannig hefst frásögn eftir Thomas Nilsen, ritstjóra Barents Observer laugardaginn 11. mars. Nilsen hefur verið settur á rússneskan bannlista og fær ekki lengur að ferðast frá Kirkenes við rússnesku landamæri yfir til Rússlands. Rússneska öryggisreglan, FSB, segir Nilsen hættulegan rússnesku öryggi.

Í greininni segir að nú séu um 8.000 hermenn við æfingar í vesturhluta Finnmerkur, nyrsta fylki Noregs. Þeir eru einkum við strönd Noregshafs í vestri og norður eftir strönd Barentshafs.

Í austri handan landamæra Noregs á Kóla-skaga í Rússlandi hafa landhermenn verið á skotæfingum skammt frá Petsamó, nokkra tugi kílómetra fyrir austan norsku landamærin. Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði laugardaginn 11. mars að skotæfing rússnesku hermannanna væri liður í keppni innan rússneska hersins. Rússar komu nýlega á fót norðurslóða-stórfylki og liðsmenn þess eiga að geta barist í djúpum snjó og miklum kulda.

Nilsen segir að úti í djúpum Barentshafs hafi tveir kjarnorkuknúnir, rússneskir kafbátar verið í hættulegasta leik sem stjórnendur kafbáta geta stundað: að reyna að granda hvor öðrum.

Annar kafbátanna er búinn langdrægum kjarnorkueldflaugum, hann heitir Júríj Dolgorukíj. Hver 16 eldflauganna um borð getur borið 6 kjarnaodda. Hinn kafbáturinn heitir Obninks og er 27 ára gamall af Viktor-gerð, hugsanlega er hann búinn skammdrægum kjarnavopnum.

Rússneska varnarmálaráðuneytið segir að erfiðasti þátturinn í neðansjávaræfingum áhafna kafbátanna í Barentshafi hafi verið að skjóta tundurskeytum með gervisprengjuoddum á skotmörk í undirdjúpunum.

Við tilraunir á getu sinni til að finna torséða hluti eltu kafbátarnir ímyndaðan óvin, áhöfnin æfði sig við að skipa báti sínum í árásarstöðu gagnvart óvininum.

Eins og málum er nú háttað er Júríj Dolgorukíj eini kafbáturinn af Borei-gerð sem haldið er úti í rússneska Norðurflotanum. TASS-fréttastofan segir að við hönnun og smíði kafbátsins hafi tekist að þróa dælutækni til að gera hann torséðan.

„Frá kafbátum af Borei-gerð má finna skotmörk neðansjávar án þess að áhafnir nokkurs óvina-herskips geti fundið þá með hlustunarbúnaði sínum,“ segir TASS.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …