Home / Fréttir / Barentshaf: Lavrov fór og síðan komu sprengjuvélarnar

Barentshaf: Lavrov fór og síðan komu sprengjuvélarnar

Sergei Lavrov og Jonas Gahr Støre heilsast í Osló þriðjudaginn 26. október 2021.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, var mánudag og þriðjudag (25. og 26. október) á fundi Barentsráðsins í Tromsø í Noregi. Þar hitti hann meðal annars Anniken Huitfeldt, nýjan utanríkisráðherra Noregs. Þau lögðu áherslu á nauðsyn þess að samskipti landanna gerðu íbúum þeirra við landamærin í norðri kleift að eiga snurðulaus samskipti.

Lavrov áréttaði hins vegar að Norðmenn væru í NATO og NATO væri enginn vinur Rússa. Nú leitaði NATO að einhverju til að sanna framtíðarhlutverk sitt og svo virtist sem það vildi „ábyrgjast öryggi hvarvetna í heiminum“.

Rússneski utanríkisráðherrann sagði að engin tengsl væru á milli Rússa og NATO en þeir ættu samskipti við Norðmenn meðal annars á sviði öryggismála og Rússar vildu að þau samskipti yrðu á háu stigi milli varnarmálaráðuneyta landanna.

Eftir fundinn í Barentsráðinu flaug Sergei Lavrov til Oslóar þar sem hann snæddi kvöldverð með jafnaðarmanninum Jonas Gahr Støre, nýjum forsætisráðherra Noregs, þriðjudaginn 26. október.

Rússneski utanríkisráðherrann hafði ekki heimsótt Noreg í tvö ár þegar hann kom þangað núna. Fyrir tveimur árum tók hann þátt í athöfn í Kirkenes við rússnesku landamærin nyrst í Noregi til að minnast þess að 75 ár voru liðin frá því að sovéski herinn frelsaði bæinn úr höndum Þjóðverja. Daginn eftir að Lavrov var þá í Noregi tilkynntu Rússar að þeir hefðu hafið mikla kafbátaæfingu í Barentshafi þar sem gerðar voru tilraunir með flaugar og skotfæri.

Rússneskar sprengjuvélar

Að þessu sinni var fundi Barentsráðsins vart lokið og Lavrov farinn til Moskvu fyrr en tvær langdrægar, rússneskar sprengjuvélar af Tu-160-gerð ásamt orrustuvélum flugu út yfir Barents- og Noreghshaf. Norðmenn sendu F-16 og F-35 orrustuþotur til að fylgjast með ferðum rússnesku vélanna.

Um borð í Tu-160 vélunum eru stýriflaugar sem geta borið kjarnorkuvopn. Vélarnar voru samtals átta klukkustundir á lofti yfir Barentshafi og Noregshafi miðvikudaginn 27. október að sögn rússneska varnarmálaráðuneytisins. Í tilkynningu þess sagði einnig að MiG-37-orrustuþotur Norðurflotans á Kólaskaga hefðu fylgt sprengjuvélunum hluta flugs þeirra.

Norsku F-16-orrustuþoturnar sem fylgdust með ferðum rússnesku sprengjuvélanna utan norskrar lofthelgi hófu sig á loft á Bodø-flugvelli. Tvær nýjar F-35-orrustuþotur Norðmanna komu frá Evenes-flugvelli.

F-35-þoturnar eru nú tímabundið í Evenes en frá og með janúar 2022 eiga þær að koma í stað F-16-þotnanna sem hluti af af Quick Reaction Alert (QRA), skjótu viðbragðsliði NATO. Orrustuþotusveitirnar sem koma reglulega til loftrýmisgæslu á vegum NATO frá Íslandi eru einnig hluti QRA-liðs NATO. Norsku F-16-orrustuþoturnar hætta QRA-verkefnum frá Bodø þegar F-35-þoturnar verð teknar að fullu í notkun.

Norsk P-3 Orion eftirlitsvél frá herflugvellinum á Andøya tók einnig þátt í eftirliti með rússnesku sprengjuvélunum.

Fyrir utan Tu-160-sprengjuvélarnar sáu flugmenn norsku orrustuþotnanna rússneska vél af gerðinni Beriev A-50. Þetta er vél búin tækjum til að greina og vara við nálægð óvinavéla og til að stjórna aðgerðum. Þessar vélar eru auðþekkjanlegar vegna stórs ratsjárhjálms og fjarskiptamasturs.

Skjámyndin sýnir ferðir bandarísku njósnavélarinnar við Kólaskaga.

Bandarísk njósnavél

Bandarísk eftirlitsvél af gerðinni RC-135 flaug miðvikudaginn 27. október fram og til baka í fjóra eða fimm klukkutíma yfir Barentshafi undan strönd Kólaskaga þar sem rússneski Norðurflotinn á mikilvæg kafbátalægi. Um borð í vélinni eru rafeindatæki til hlerana og til að greina sendingar úr óvinveittum stjórnstöðvum fyrir skip og flugvélar.

RC-135 V-flugvélin koma frá Mildenhall flugherstöðinni í Bretlandi. Njósnaflugvélar sem sendar eru til eftirlitsstarfa í grennd við mikilvægar kafbátahafnir Rússa Kólaskaga fá ekki afnot af norskum flugvöllum og þeim er bannað að fljúga yfir norskt yfirráðasvæði. Ákvarðanir um þetta taka mið af viðleitni norskra stjórnvalda til að sýna Rússum tillitssemi sem góðir nágrannar og til að gefa rússnesku herstjórninni ekki tilefni til vopnaglamurs gagnvart Noregi.

 

Heimild: Barents Observer

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …