Home / Fréttir / Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Aleksandr Lapin er til vinstri á myndinni.

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er eitt fimm herstjórnarsvæða landsins og nær yfir norðvesturhluta Rússlands, það er héruðin sem eru kennd við borgirnar St. Pétursborg, Múrmansk og Arkhangelsk. Rússneski Norðurflotinn fellur einnig undir Leningrad-herstjórnina.

Aleksandr Lapin (60 ára) þjónaði nokkrum sinnum í rússneska hernum í Sýrlandi og var skipaður yfirmaður rússneska heraflans þar árið 2018.

Þegar rússneski herinn var sendur inn í Úkraínu í febrúar 2022 var Lapin yfirmaður Miðherstjórnarsvæðisins. Vorið 2022 sagði BBC frá því að hershöfðinginn hefði sæmt son sinn heiðursmerki fyrir þátttöku í árásum á tvö héruð í Úkraínu. Fylgdi fréttinni að athöfn vegna orðuveitinganna hefði farið fram í sama mund og rússnesku hersveitirnar voru neyddar til að hörfa frá þessum sömu héruðum.

Lapin barðist einnig í hernumdum héruðum Úkraínu og vitað er að hann stjórnaði sveitum sem börðust í Luhansk-héraði.

Vladimir Pútin sæmdi hann titlinum hetja Rússlands 4. júlí 2023.

Lapin tekur nú við stjórn þess hluta rússneska hersins sem er við landamæri Finnlands og Noregs og á Kólaskaga.

Ríkisstjórn Rússlands hóf að endurskipuleggja yfirstjórn herafla síns skömmu eftir að Finnar gerðust aðilar að NATO. Þá var til dæmis tekin ákvörðun um að Norðurflotinn lyti ekki lengur eigin herstjórn heldur yrði settur undir Leningrad-herstjórnina og Vesturherstjórnarsvæðinu var skipt.

Katarzyna Zysk, prófessor við Norsku varnarmálastofnunina, Norwegian Institute for Defence Studies (IFS), sagði þá að rekja mætti uppstokkun herstjórnanna til þess að sameiginleg landamæri Rússlands og NATO hefðu lengst til mikilla muna með aðild Finna (rúma 1.300 km).

„Ákvörðunin um að skipta Vesturherstjórnarsvæðinu milli Moskvu-herstjórnarinnar og Leningrad-herstjórnarinnar og um að leggja Norðurflotann undir þá síðari er svar við stækkun NATO í Norður-Evrópu og öðrum breytingum á skipulagi varna bandalagsþjóðanna,“ sagði Zysk.

 

Heimild: Barents Observer.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …