Home / Fréttir / Bannon vill hreinræktaða stjórn popúlista í Róm

Bannon vill hreinræktaða stjórn popúlista í Róm

Luigi di Maio, leiðtogi Fimm-stjörnu-hreyfingarinnar.
Luigi di Maio, leiðtogi Fimm-stjörnu-hreyfingarinnar.

 

Steve Bannon, fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trumps, baráttuglaður þjóðernissinni ferðast nú um Evrópu. Hann var á Ítalíu þegar gengið var til þingkosninga þar sunnudaginn 4. mars og fagnaði úrslitunum í Róm. Hann sagði að ítalskir kjósendur hefðu óskað eftir „hreinræktuðum popúlisma“ og þar með „gengið lengra“ en Bretar þegar þeir samþykktu að ganga úr ESB eða Bandaríkjamenn þegar þeir kusu Trump sem forseta. Bannon sagði að óskastjórn sín væri að pópúlistarnir störfuðu saman. Það yrði stunga í hjartastað Brusselmanna og gerði þá ofsahrædda.

Matthias Rüb, blaðamaður þýska blaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung (FAZ) í Róm, segir að tölur sýni að flokkarnir sem sigruðu í kosningunum sunnudaginn 4. mars geti myndað öruggan meirihluta í báðum deildum ítalska þingsins. Fimm-stjörnu-hreyfingin fékk 32% atkvæða og Bandalagið (Lega) 18%.

Sé litið til uppruna flokkanna tveggja getur hann varla verið ólíkari. Lega var stofnað sem Lega Nord af Umberto Bossi árið 1989 sem héraðsflokkur í auðugum norðurhluta Ítalíu. Markmið flokksins var árum saman að eiga sem minnsta samleið með fátækum suðurhluta Ítalíu. Flokkurinn breyttist ekki fyrr en árið 2013 í flokk alls landsins undir forystu Salvinis. Markmið hans er að skipa forystusæti meðal allra ítalskra hægrimanna. Hann hefur náð því án þess að fórna frjálslyndri stefnu flokksins í efnahags- og félagsmálum.

Meðal kosningaloforða Lega árið 2018 er 15% flatur tekjuskattur á einstaklinga og lítil og meðalstór fyrirtæki. Lega vill herða refsingar og auka öryggi almennings með fjölgun lögreglumanna. Flokkurinn boðar ókeypis leikskólavist fyrir börn og betri lífeyrisréttindi eldri borgara. Þá ætlar hann að ráðast í miklar innviðafjárfestingar.

Flokkurinn hefur viðvaranir ESB vegna mikilli skulda ítalska ríkisins að engu. Salvini hefur lofað að losa þjóðina undan „oki framkvæmdastjórnar ESB“. Í kosningabaráttunni minntist Salvini ekki gamalt loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna evrunnar. Flokkurinn hefur hins vegar harða afstöðu gegn flótta- og farandfólki og vill fjöldaflutning á því úr landi.

Beppe Grillo, skemmtikraftur í sjónvarpi, stofnaði Fimm-stjörnu-hreyfinguna (Fimm-stjörnuna) árið 2009. Hún höfðaði sterkt til almennings með skemmtilegum uppákomum og boðskap um að hún væri handan allrar hugmyndafræði. Engu að síður er litið á hana sem hreyfingu vinstri-popúlista, sem hallast þó mjög að kröfum um lög og reglu og gagnrýna útlendingastefnu ESB.

Fimm-stjarnan er gagnrýnin á ESB eins og Lega. Í kosningabaráttunni lagði hún þó enga áherslu á gamalt baráttumál sitt um þjóðaratkvæðagreiðslu til að losna undan evrunni. Flokkurinn vill harða stefnu gegn flótta- og farandfólki. Gert er ráð fyrir því í stefnu flokksins að lágmarkslaun einstaklings verði 780 evrur. tæplega 100.000 ísl. kr. og 1170 evrur tæplega 145.000 ísl. kr. fyrir tvo í heimili. Lífeyrisgreiðslur eiga einnig að taka mið af þessu. Þessi stefna leiddi til þess að á Suður-Ítalíu fékk flokkurinn um 60% atkvæða í sumum kjördæmum. Þá vill flokkurinn aðeins endurnýjanlega orkugjafa og leggur áherslu á deilihagkerfi.

Báðir flokkarnir vilja afturkalla breytingar jafnaðarmanna á vinnu- og lífeyrislögum. Þeir vilja hverfa frá aðhaldsstefnu fráfarandi ríkisstjórnar og lækka mjög skatta á þá lægst launuðu. Þeir vilja auka skuldir ríkisins þar til ný fjárfestingastefna tekur að skila ríkinu tekjum til að greiða skuldir.

Matteo Salvini sagði þriðjudaginn 6. mars að hvorki samvinna né samsteypustjórn með Fimm-stjörnunni kæmi til álita. Það yrði aldrei. Í kosningabaráttunni lofaði Luigi Di Maio að flokkurinn sinn mundi vísa Lega og evrópskum vinum forystu bandalagsins á dyr – þar vísaði hann til Viktors Orbáns, forsætisráðherra Ungverjalands, AfD í Þýskalandi og Marine Le Pen í Frakklandi. Óskastjórn Steves Bannons „mynduð af öllum popúlistum“ er því ekki enn í sjónmáli, segir  Matthias Rüb, blaðamaður þýska blaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung (FAZ) í Róm, í lok greinar sinnar.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …