Home / Fréttir / Bann við betli tekur gildi í sænsku sveitarfélagi

Bann við betli tekur gildi í sænsku sveitarfélagi

33b10ebb2c32db0d4f732db51456070f683436c3f70aaefa870dde1296fa75d7

Lögregla í sænska bænum Vellinge skammt frá Malmö stuggar nú við betlurum, tveimur vikum eftir að æðsti stjórnsýsludómstóll Svíþjóðar staðfesti heimild sveitarstjórnarinnar til að banna betl innan lögsögu sinnar.

Jörgen Sjåstad, lögreglumaður í Vellinge, sagði við dagblaðið Sydsvenskan að hann hefði hafist handa við að framkvæma bannið í vikunni eftir jól.

„Ég hef farið og rætt við tvo betlara og sagt öðrum að hverfa á brott, þetta gengur allt eftir áætlun,“ sagði hann við blaðamanninn. „Ég lék fyrir þá upptöku þar er sagt á rúmensku að þeim sé bannað að betla þar sem þeir stóðu.“

Þetta er fyrsta bannið af þessu tagi í Svíþjóð. Sveitarstjórnin ákvað í ágúst 2017 að innleiða það. Vakti ákvörðunin athygli um alla Svíþjóð og sögðu mannréttindasamtök hana ómannúðlega.

Ákvörðun sveitarstjórnarinnar var kærð til héraðs-stjórnsýsludómstóls sem taldi hana ólögmæta. Æðsti stjórnsýsludómstóll Svíþjóðar hafnaði þessari niðurstöðu 17. desember 2018 og þar með gat sveitarstjórnin hrundið ákvörðun sinni í framkvæmd.

Sjåstad heldur að það séu aðeins þrír betlarar á götum úti í Vellinge og það verði örugglega ekki erfitt að tryggja framkvæmd bannsins.

Mið-hægriflokkurinn Moderatarna hét kjósendum því í þingkosningabaráttunni árið 2018 að setja bann við betli um alla Svíþjóð, fara að fordæmi Dana frá árinu 2014.

Könnun á vegum sænska ríkisútvarpsins, SVT, sýndi að minnst 40 sveitarstjórnir hefðu áhuga á að setja bann við betli.

Eins og áður sagði er betl bannað í Danmörku, sama gildir um ýmis fylki í Noregi. Betl hefur verið bannað i Englandi og Wales frá árinu 1824.

Heimild: thelocal.se

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …