Home / Fréttir / Bandarískur öldungadeildarþingmaður telur að nýta beri frábæra aðstöðu í Keflavík í þágu hervarna

Bandarískur öldungadeildarþingmaður telur að nýta beri frábæra aðstöðu í Keflavík í þágu hervarna

Angus King, öldungadeildarþingmaður utan flokka fræa Maine-ríki.
Angus King, öldungadeildarþingmaður utan flokka fræa Maine-ríki.

Angus King, öldungadeildarþingmaður utan flokka frá Maine-ríki í Bandaríkjunum, mæltist til þess nýlega í hermálanefnd deildarinnar að frábær aðstaða á Keflavíkurflugvelli yrði nýtt í þágu Bandaríkjahers svo að hún úreltist ekki eða færi til annarra nota og velti fyrir sér hvort endurskoða ætti ákvörðunina um brottför varnarliðsins héðan fyrir 10 árum. Ísland hefði gífurlega mikið hernaðarlegt gildi.

Philip Breedlove, hershöfðingi, yfirmaður Evrópuhers Bandaríkjanna og Evrópuherstjórnar NATO, gaf hermálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings undir formennsku repúblíkanans Johns McCains skýrslu um stöðu öryggismála í Evrópu þriðjudaginn 1. mars. Unnt er að lesa útskrift af því sem á fundinum gerðist á netinu. Hér skal vikið að því sem snerti N-Atlantshafið og Ísland.

John Reed, öldungadeildarþingmaður demókrata frá Rhode Island, vék að umsvifum rússneskra kafbáta og að Breedlove hefði sagt að Evrópuherstjórnin þyrfti meiri aðstoð frá bandaríska kafbátaflotanum en hún fengi. Bað Reed hershöfðingjann um að skýra þetta nánar.

Breedlove svaraði og sagðist vilja benda á kort sem var í fundarherberginu. Hann benti á Kóla-skagann og svæðið í kringum Múrmansk og sagði að þar væri svæðið þar sem Rússar smíðuðu alla fullkomnustu kafbáta sína og gerðu tilraunir með þá. Það væri ekkert leyndarmál. Síðan héldu þeir út á heimshöfin en til þess og til að geta notað þessa kafbáta yrðu þeir að fara um svæði sem Breedlove sýndi á kortinu, svæði sem kallað væri GIUK Gap, það er GIUK-hliðið, innan hersins elskuðu menn skammstafanir og þessi stæði fyrir Greenland, Iceland, U.K. Gap – the GIUK Gap. Hershöfðinginn sagði að það væri verkefni herstjórnar sinnar að geta fylgst með öllum þessum umsvifum, Rússum væri ljóst notagildi kafbáta og þeir hefðu lagt mikið fé í smíði þessara kafbáta.

Þessi orðaskipti hershöfðingjans við Reed voru við upphaf spurninga til hans frá einstökum nefndarmönnum. Síðar bað Angus King, öldungadeildarþingmaður frá Maine, um orðið. Hann er utan flokka en situr þingflokksfundi með demókrötum.

King benti á að Breedlove hvetti eindregið til þess að Bandaríkjaþing fullgilti hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Bað King um nánari útlistun á þessari skoðun. Breedlove minnti á að talsmenn Bandaríkjahers hefðu staðfastlega mælt með fullgildingu hafréttarsáttmálans. Hann nefndi sem dæmi máli sínu til stuðnings að fyrir skömmu hefðu Rússar endurnýjað kröfur sínar um eignarhald og rétt til að ráða yfir stórum hluta landsgrunnsins á Norður-Íshafi en jafnframt ykju þeir hernaðarumsvif sín þar. Bandaríkjamenn hefðu engin úrræði í krafti hafréttarsáttmálans til að bregðast við þessum kröfum. Þá sagði King:

„Á liðnu hausti var ég á Íslandi og gerði mér grein fyrir hernaðarlegu gildi landsins og kynnti mér gömlu flugherstöðina í Keflavík. Eigum við að endurskoða ákvörðun okkar um að yfirgefa stöðina og leita einhverra leiða til að hafa þar lið að nýju? Í mínum huga er þarna um risavaxið, ósökkvanlegt flugmóðurskip að ræða á mestu – einni af mest strategísku leiðum í heimi. Hver er skoðun þín?“

Breedlove: „Svo að ég noti kortið til að lýsa GIUK-hliðinu […] er mjög mikilvægt fyrir okkur að geta stundað upplýsingaöflun, eftirlit og könnun auk annarra aðgerða frá stöðum eins og Keflavík og nú þegar höfum við tekið upp suma þessa þræði að nýju (and we are already renewing some of these conversations).“

King: „Ég vona að því verði haldið áfram, einkum áður en þessi aðstaða verður notuð í annað eða úreldist, þetta er frábær aðstaða.“

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …