Home / Fréttir / Bandarískur kjarnorkukafbátur í höfn við Tromsø

Bandarískur kjarnorkukafbátur í höfn við Tromsø

USS New Mexico að bryggju í N-Noregi.

Kjarnorkuknúni, bandaríski kafbáturinn USS New Mexico sem borið getur langdrægar kjarnaflaugar lagðist við bryggju í Grøtsund-höfn við Tønsnes, 10 km frá miðborg Tromsø, í Norður-Noregi mánudaginn 10. maí 2021.

Kafbáturinn er hluti sjötta flota Bandaríkjanna og í tilkynningu frá yfirstjórn hans segir að tilgangurinn með heimsókn hans til Noregs sé að „dýpka öryggissamstarf“ Bandaríkjamanna og Norðmanna en þjóðirnar vilji báðar stuðla að friði, öryggi og farsæld á höfunum. Þjóðirnar standi náið saman innan NATO og vinni sameiginlega að framgangi margra mála sem séu mikilvæg fyrir þær báðar og NATO í heild.

Þá segir í tilkynningu flotastjórnarinnar að USS New Mexico sé á venjulegri eftirlitsferð og taki þátt í verkefnum með bandalags- og samstarfsþjóðum Bandaríkjanna á starfssvæði sjötta bandaríska flotans. Heimahöfn kafbátsins er í Groton í Connecticut-ríki í Bandaríkjunum. USS New Mexico er sjötti kafbáturinn af 19 af Virginiu-gerð og var tekinn í notkun í mars 2010. Kafbáturinn er 113 m langur og 130 menn eru í áhöfn hans.

Á norsku vefsíðunni Barents Observer segir að fáeinir félagar í samtökunum No to Nuclear-powered Military vessels in Tromsø Nei við kjarnorkuknúnum herskipum í Tromsø – hafi mótmælt komu kafbátsins með borðum sem á stóð: U.S. Army out of Norway og No nukes in Tromsø – Bandaríkjaher burt frá Noregi og Enga kjarnorkusprengjur í Tromsø. Þá hefur komu kafbátsins verið mótmælt í Moskvu.

Á Barents Observer segir að hefðu norsk yfirvöld ekki heimilað afnot af þessari hafnaraðstöðu skammt frá Tromsø hefði þurft að skipta um áhöfn hans á hafi úti undan strönd Norður-Noregs eða hann hefði orðið sigla til Haakonsvern við Bergen eða flotahafnar á Bretlandseyjum. Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, segir betra og öruggara að heimila kafbátum að nota hafnaraðstöðu en að efna til áhafnaskipta á hafi úti.

Undanfarin ár hafa kafbátar frá NATO-ríkjum komið að strönd Noregs 3 til 4 sinnum í mánuði til áhafnaskipta eða til að ná í birgðir. Ofast gerist þetta undan norðurströnd landsins.

 

 

 

 

Skoða einnig

Óljósar fregnir af lögsögukröfum Rússa á Eystrasalti vekja grunsemdir

  Rússnesk stjórnvöld kynntu miðvikudaginn 22. maí áform um að breyta ytri markalínum rússneskra yfirráðasvæða …