Home / Fréttir / Bandarískur hershöfðingi segir NATO ekki geta varið Eystrasaltsríkin

Bandarískur hershöfðingi segir NATO ekki geta varið Eystrasaltsríkin

Ben Hodges hershöfðingi ræðir við liðsmann sinn.
Ben Hodges hershöfðingi ræðir við liðsmann sinn.

Ben Hodges, hershöfðingi, yfirmaður landhers Bandaríkjanna í Evrópu, sagði miðvikudaginn 22. júní að við núverandi aðstæður gæti NATO ekki varið Eystrasaltsríkin gegn árás Rússa.

„Rússar gætu náð Eystrasaltsríkjunum á sitt vald hraðar en við hefðum tök á að verja þau,“ sagði Hodges í samtali við þýska blaðið Die Zeit.

Hershöfðinginn sagðist sammála því mati hernaðarsérfræðinga að Rússar gætu lagt undir sig höfuðborgir Lettlands, Litháens og Eistlands á 36 til 60 klukkustundum.

Hodges sagði að ýmsir veikleikar hefðu komið í ljós í nýlegri heræfingu, Anaconda, í Póllandi. Ekki hefði verið unnt að flytja þungavopn nógu hratt frá vesturhluta Evrópu til austurhlutans. Þá yrði einnig að huga að fjarskiptatækni herja bandalagsins.

„Hvorki er unnt að líta á talsamband né netsamband sem örugga boðleið,“ sagði hershöfðinginn. „Ég lít þannig á að fylgst sé með öllu sem ég skrifa á BlackBerry[símann] minn.“

Anaconda var opinberlega pólsk heræfing en hermenn frá 20 NATO-ríkjum tóku þátt í henni. Hodges sagði Die Zeit að stjórnvöld sumra ríkja eins og Frakklands og Þýskalands hefðu talið það „of ögrandi gagnvart Rússum að kalla hana NATO-æfingu“.

Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna leggja til við leiðtogafund NATO sem verður í Varsjá 8. og 9. júlí að send verði fjögur herfylki til Eistlands, Lettlands, Litháens og Póllands til að treysta stöðuna gagnvart Rússum.

Jafnaðarmaðurinn Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, gagnrýndi fyrir nokkrum dögum stefnu NATO og vísaði sérstaklega til Anakonda-æfingarinnar. Taldi hann að slíkt „vopnaskak“ gerði illt verra í samskiptum við Rússa. Hlaut hann mikla gagnrýni fyrir þessa afstöðu frá kristilegum demókrötum, flokksmönnum Angelu Merkel Þýskalandskanslara.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …