
Ben Hodges, hershöfðingi, yfirmaður landhers Bandaríkjanna í Evrópu, sagði miðvikudaginn 22. júní að við núverandi aðstæður gæti NATO ekki varið Eystrasaltsríkin gegn árás Rússa.
„Rússar gætu náð Eystrasaltsríkjunum á sitt vald hraðar en við hefðum tök á að verja þau,“ sagði Hodges í samtali við þýska blaðið Die Zeit.
Hershöfðinginn sagðist sammála því mati hernaðarsérfræðinga að Rússar gætu lagt undir sig höfuðborgir Lettlands, Litháens og Eistlands á 36 til 60 klukkustundum.
Hodges sagði að ýmsir veikleikar hefðu komið í ljós í nýlegri heræfingu, Anaconda, í Póllandi. Ekki hefði verið unnt að flytja þungavopn nógu hratt frá vesturhluta Evrópu til austurhlutans. Þá yrði einnig að huga að fjarskiptatækni herja bandalagsins.
„Hvorki er unnt að líta á talsamband né netsamband sem örugga boðleið,“ sagði hershöfðinginn. „Ég lít þannig á að fylgst sé með öllu sem ég skrifa á BlackBerry[símann] minn.“
Anaconda var opinberlega pólsk heræfing en hermenn frá 20 NATO-ríkjum tóku þátt í henni. Hodges sagði Die Zeit að stjórnvöld sumra ríkja eins og Frakklands og Þýskalands hefðu talið það „of ögrandi gagnvart Rússum að kalla hana NATO-æfingu“.
Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna leggja til við leiðtogafund NATO sem verður í Varsjá 8. og 9. júlí að send verði fjögur herfylki til Eistlands, Lettlands, Litháens og Póllands til að treysta stöðuna gagnvart Rússum.
Jafnaðarmaðurinn Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, gagnrýndi fyrir nokkrum dögum stefnu NATO og vísaði sérstaklega til Anakonda-æfingarinnar. Taldi hann að slíkt „vopnaskak“ gerði illt verra í samskiptum við Rússa. Hlaut hann mikla gagnrýni fyrir þessa afstöðu frá kristilegum demókrötum, flokksmönnum Angelu Merkel Þýskalandskanslara.