Home / Fréttir / Bandarískur her undir merkjum NATO stöðugt við landamæri Rússlands

Bandarískur her undir merkjum NATO stöðugt við landamæri Rússlands

 

Bandarískir hermenn á æfingu í Stryker-brynvagni í A-Evrópu.
Bandarískir hermenn á æfingu í Stryker-brynvagni í A-Evrópu.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur gert áætlun um að halda að staðaldri úti bandarískum hermönnum, skriðdrekum og öðrum brynvörðum farartækjum við austurlandamæri NATO til að fæla Rússa frá árás, er þetta í fyrsta sinn sem heraflanum er beitt á þennan hátt frá lokum kalda stríðsins, segir í upphafi fréttar The Wall Street Journal (WSJ) fimmtudaginn 31. mars þar sem sagt er frá tilkynningu varnarmálaráðuneytisins sem sagt var frá hér á vefsugerc33.sg-host.com í gær.

WSJ segir á stjórnvöld ýmissa NATO-landa á austurvæng bandalagsins hefðu lýst áhyggjum vegna léttvægrar áherslu Bandaríkjamanna á varnir þeirra, einkum eftir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hóf íhlutun í málefni Úkraínu.

Vitnað er til Roberts Works, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem segir að nýja áætlunin ætti að minnka áhyggjur þessara stjórnvalda því að í henni felist að bandaríski herinn muni flytja meira af bestu og nútímalegustu hergögnum sínum til þessara landa og samtímis yrði eitt stórfylki bandarískra hermanna sent reglubundið til skiptis til landanna.

Meðal nýju hergagnanna eru 250 skriðdrekar, stríðsvagnar af Bradley-gerð, sjálfknúnar spengjuvörpur auk rúmlega 1.700 ökutækja og flutningabíla.

Work sagði við WSJ að auk búnaðarins sem fyrir í Evrópu væru nú hergögn fyrir eina herdeild í Evrópu (3 til 4 stórfylki) sem mætti nýta „ef eitthvað gerðist“.

Forseti Bandaríkjanna hefur samþykkt útlínur áætlunarinnar sem á að koma til framkvæmda í febrúar 2017 samþykki Bandaríkjaþing aukin útgjöld til varna Evrópu, hækkun úr 780 milljónum dollara í 3,4 milljarða.

WSJ segir að frá 2014 hafi 4.200 bandarískir hermenn verið fluttir reglulega til dvalar í Evrópu og síðan til Bandaríkjanna aftur til viðbótar við þá 62.000 bandarísku hermenn sem dveljist að staðaldri í álfunni.

Nú er ætlun varnarmálaráðuneytisins að senda bryndreka stórfylki landhersins ár hvert til Evrópu og dreifa 4.200 manna liðsafla þess á sex lönd: Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Rúmeníu og Búlgaríu.

Hermennirnir verða einkum á austurvæng NATO eins og nýi tækjakosturinn en fara á milli landa eftir því sem þurfa þykir vegna æfinga og þjálfunar.

Ben Hodges, undirhershöfðingi hjá bandaríska Evrópuhernum, U.S. Army Europe, sagði við WSJ að nýja áætlunin gerði ráð fyrir stöðugri viðveru bandarískra hermanna við austurlandamæri NATO. Hermennirnir mundu æfa með her heimamanna og hittast reglulega til æfinga sem stærri liðsheild.

Rússneskur embættismaður sagði þriðjudaginn 29. mars að stjórnvöld í Moskvu mundu grandskoða bandarísku áætlunina og einnig áform NATO um að halda stöðugt úti herafla í austurhluta Evrópu. Hann áréttaði þá afstöðu Rússa að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra beittu falsrökum að baki ákvörðunum sínum um hervæðingu við landamæri Rússlands.

Rússneskir embættismenn segja að ákvörðunin sem nú er hrundið í framkvæmd brjóti í bága við grunnsamning NATO og Rússlands frá 1997 þar sem segir að bandalagið muni ekki halda stöðugt úti umtalsverðum bardagasveitum við landamæri Rússlands.

Þar sem ekki hefur verið skilgreint hvað felst í orðinu „umtalsverður“ segja embættismenn NATO að liðsaflinn sem nú sé á dagskrá að senda á vettvang sé innan marka ákvæða samningsins.

Alexander Grushko, sendiherra Rússa gagnvart NATO, hallmælti áformum Bandaríkjamanna um að auka liðsafla sinn í austurhluta Evrópu í samtali við WSJ í febrúar. „Rússar hreyfa sig ekki,“ sagði hann. „NATO hreyfir yfirráðasvæði sitt nær Rússlandi með stækkun. Nú ætlar bandalagið að nota þetta landsvæði til að beina hervaldi í áttina að Rússlandi.“

Gömul hergögn Bandaríkjamanna í austurhluta Evrópu verða flutt til vopnageymslna í Þýskalandi þar sem þau verða yfirfarin og síðan dreift til herstöðva í Þýskaland, Hollandi og Belgíu.

WSJ segir að vegna þessa hafi embættismenn í Póllandi og Eystrasaltsríkjunum áhyggjur af því að Bandaríkjamenn haldi úti einu stórfylki í Þýskalandi á meðan hergögnum og hermönnum sé dreift á bandalagsríkin í austri.

„Þetta festir aðeins tvískiptingu bandalagsins í sessi á milli gömlu Evrópu og nýju Evrópu,” sagði stjórnarerindreki frá A-Evrópu. „Herafli er fluttur til baka til gömlu Evrópu og það er ekkert nýtt gert fyrir nýju Evrópu og það er hjá okkur sem minnst er fyrirstaðan.“

Bandarískir embættismenn sögðu að í nýju áætluninni fælist að stundum gæti verið meira eða minna af tækjum í einu landi en öðrum vegna þess að bandaríski herinn yrði stöðugt að fara úr einu Evrópulandi í annað. Til hins ætti þó jafnframt að líta að í Evrópu yrðu að lokum ný háþróuð bandarísk hergögn sem dygðu fyrir eitt stórfylki.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …