
Rússar hafa aukið kafbátaferðir sínar og láta reglulega reyna á kafbátavarnarkerfi Bandaríkjanna í nýrri „orrustu um Atlantshafið“ segir James Foggo flotaforingi, yfirmaður 6. flota Bandaríkjanna, í grein í Proceedings, tímariti U.S. Naval Institute. Fyrirsögn greinarinnar er Fjórða orrustan um Atlantshafið. Þar lýsir hann „hernaði“ kafbáta Bandaríkjamanna og Rússa um þessar mundir.
Foggo líkir ferðum rússneskra kafbáta nú við hinn umfangsmikla kafbátahernað milli Þjóðverja og bandamanna í fyrri og síðari heimsstyrjöldinni og reiptog Sovétmanna og Bandaríkjamanna í undirdjúpunum í kalda stríðinu.
„Enn á ný er okkur ögrað af skilvirkum, hæfum og tæknilega vel búnum rússneskum kafbátaflota. Rússneskir kafbátar sveima í djúpum Atlantshafs, láta reyna á varnir okkar, skipa sér gegn yfirráðum okkar á hafsvæðum, skapa sér flókna vígstöðu neðansjávar svo að þeir hafi yfirhöfndina í hvers kyns framtíðarátökum,“ segir Foggo í grein sinni.
Hann segir ekki nóg með að geta Rússa og umsvif hafi aukist á ógnvekjandi hátt heldur miði þjóðaröryggisstefna þeirra að því að ögra Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra innan NATO.
Frá því að Rússar innlimuðu Krím í mars 2014 hafa herskip, flugvélar og kafbátar rússneska flotans látið mun meira að sér kveða en áður – einkum kafbátarnir.
Rússneskir ráðamenn hafa undanfarin tvö ár ekki farið leynt með áhersluna sem þeir leggja á kafbátaflotann. Viktor Tsjirkov, yfirmaður rússneska flotans, sagði í mars 2015 að umsvif kafbáta þeirra hefðu aukist um 50%. Sagði hann það rökrétt og nauðsynlegt til að tryggja öryggi ríkisins.
Bandaríkjamenn telja að Rússar standi þeim tæknilega að baki þegar litið er til herskipa og flugvéla hins vegar hafi Rússar lagt mikla áherslu á að efla þróun kafbáta sinna frá hruni Sovétríkjanna.
Auk endurnýjunar kjarnorkuknúinna kafbáta hafa Rússar unnið að tæknilegum endurbótum á dísel-rafmagns kafbátum sínum þar á meðal getu báta af Kilo-gerð til að skjóta langdrægum Kalibir NK-stýriflaugum.
Í grein sinni segir Foggo um þessa kafbáta að þeir skapi Bandaríkjunum mestan vanda við kafbátaleit vegna þess hve erfitt sé að finna þá. Hann bendir á að Rússar hafi notað kafbáta af þessari gerð til að skjóta Kalibr-stýriflaugum á skotmörk í Sýrlandi frá austurhluta Miðjarðarhafs. Notkun flauganna sýni að rússneskir ráðamenn hiki ekki við að beita þeim að eigin geðþótta án tillits til þess hvort þær lendi á almennum borgurum eða hernaðarmannvirkjum.
Í grein sinni lýsir Foggo „stálboga“ rússneskra kafbáta sem nær frá Norður-Íshafi til Svartahafs.
„Með umfangsmiklum og tíðum kafbátaferðum um Norður-Atlantshaf og Noregshaf og framvarðarsveitum í Sýrlandi geta Rússar skapað hættu fyrir næstum allan flota NATO-ríkjanna,“ segir flotaforinginn.