Home / Fréttir / Bandarískur flotaforingi: Rússar koma sér upp „stálboga“ frá Norður-Íshafi til Miðjarðarhafs

Bandarískur flotaforingi: Rússar koma sér upp „stálboga“ frá Norður-Íshafi til Miðjarðarhafs

Mark Ferguson
Mark Ferguson

 

Í anda Winstons Churchills sem notaði líkinguna um járntjald til að lýsa stöðunni í Evrópu við upphaf kalda stríðsins komst Mark Ferguson, flotaforingi og yfirmaður herstjórnar NATO í Napólí og bandaríska flotans í Evrópu og Afríku, þannig að orði í fyrirlestri hjá  Atlantic Council í Washington þriðjudaginn 6. október að Rússar væru að koma sér upp „stálboga“ frá Norður-Íshafi að Miðjarðarhafi.

Flotaforinginn sagði Rússa helsta ógnvaldinn í Evrópu. Leiðtogum Rússlands þætti meira en sjálfsagt að beita hervaldi til að ná markmiðum sínum. Til að sanna það mætti benda á árás Rússa á Georgíu, ólögmæta innlimun Krímskaga og framgöngu þeirra í Úkraínu.

Hann lýsti viðbrögðum NATO sem fælust annars vegar í að árétta varðstöðu aðildarríkjanna um sameiginleg varnarkerfi og hins vegar í aðlögun þessa kerfis að nýjum aðstæðum.     Í því fælist að gera ráðstafanir til varna í lofti og á landi en jafnframt í netheimum.

Mark Ferguson sagði Rússa einnig virka á hafi úti. Floti þeirra frá Norður-Atlantshafi til Svartahafs efldist jafnt og þétt, hann fylgdi nýrri flotastefnu og væri búinn fullkomnum tækjum til aðgerða á hafi úti. Flotaforinginn sagði:

„Endurhervæðing stefnu Rússa í öryggismálum birtist greinilega í viðleitni þeirra við að skapa „stálboga“ frá Norður-Íshafi til Miðjarðarhafs. Rússar hafa kynnt til sögunnar fullkomnar loftvarnir, stýriflaugakerfi og nýja skotpalla.“

Hann sagði stefnunni greinilega ætlað að halda flota NATO í skefjum og hún væri ekki mótuð í varnarskyni. Þá væri hæfni rússneska kafbátaflotans að aukast.

Þá sagði hann að fjölhæfni væri felld inn í hefðbundna hernaðarstefnu Rússa, Þar væri um að ræða beitingu búnaðar í geimnum, netárásir, upplýsingastríð og beitingu blendingsaðgerða (hybrid warfare) til að lama ákvörðunarkerfi NATO. Fyrir Rússum vekti að skapa efasemdir og ala á tvíræðni.

Ferguson vitnaði í Viktor Tsjirkov, yfirmann rússneska flotans, sem hefði sagt að eftirlitsferðum rússneskra kafbáta hefði fjölgað um nærri 50% síðan í fyrra. Kafbátar þeirra væru nú torséðari en eldri gerðir bátanna, þeir væru knúnir kjarnorku bæði til árása og til að skjóta langdrægum eldflaugum í varnarskyni.

Hann lagði til að andsvar NATO yrði þríþætt: Í fyrsta lagi yrðu bandalagsríkin leggja rækt við háþróaða herþjálfun. Í öðru lagi yrði herinn að vera til þess búinn að taka þátt í aðgerðum sem næðu til alls heimsins. Í þriðja lagi yrðu NATO-þjóðirnar að standa Rússum feti framar,

 

Skoða einnig

Norski herinn fylgist náið með spennunni við Úkraínu

Eirik Kristoffersen, yfirmaður norska heraflans, sagði við fréttastofuna NTB föstudaginn 22. janúar að hann teldi …