Home / Fréttir / Bandarískur flotaforingi: Rússar koma sér upp „stálboga“ frá Norður-Íshafi til Miðjarðarhafs

Bandarískur flotaforingi: Rússar koma sér upp „stálboga“ frá Norður-Íshafi til Miðjarðarhafs

Mark Ferguson
Mark Ferguson

 

Í anda Winstons Churchills sem notaði líkinguna um járntjald til að lýsa stöðunni í Evrópu við upphaf kalda stríðsins komst Mark Ferguson, flotaforingi og yfirmaður herstjórnar NATO í Napólí og bandaríska flotans í Evrópu og Afríku, þannig að orði í fyrirlestri hjá  Atlantic Council í Washington þriðjudaginn 6. október að Rússar væru að koma sér upp „stálboga“ frá Norður-Íshafi að Miðjarðarhafi.

Flotaforinginn sagði Rússa helsta ógnvaldinn í Evrópu. Leiðtogum Rússlands þætti meira en sjálfsagt að beita hervaldi til að ná markmiðum sínum. Til að sanna það mætti benda á árás Rússa á Georgíu, ólögmæta innlimun Krímskaga og framgöngu þeirra í Úkraínu.

Hann lýsti viðbrögðum NATO sem fælust annars vegar í að árétta varðstöðu aðildarríkjanna um sameiginleg varnarkerfi og hins vegar í aðlögun þessa kerfis að nýjum aðstæðum.     Í því fælist að gera ráðstafanir til varna í lofti og á landi en jafnframt í netheimum.

Mark Ferguson sagði Rússa einnig virka á hafi úti. Floti þeirra frá Norður-Atlantshafi til Svartahafs efldist jafnt og þétt, hann fylgdi nýrri flotastefnu og væri búinn fullkomnum tækjum til aðgerða á hafi úti. Flotaforinginn sagði:

„Endurhervæðing stefnu Rússa í öryggismálum birtist greinilega í viðleitni þeirra við að skapa „stálboga“ frá Norður-Íshafi til Miðjarðarhafs. Rússar hafa kynnt til sögunnar fullkomnar loftvarnir, stýriflaugakerfi og nýja skotpalla.“

Hann sagði stefnunni greinilega ætlað að halda flota NATO í skefjum og hún væri ekki mótuð í varnarskyni. Þá væri hæfni rússneska kafbátaflotans að aukast.

Þá sagði hann að fjölhæfni væri felld inn í hefðbundna hernaðarstefnu Rússa, Þar væri um að ræða beitingu búnaðar í geimnum, netárásir, upplýsingastríð og beitingu blendingsaðgerða (hybrid warfare) til að lama ákvörðunarkerfi NATO. Fyrir Rússum vekti að skapa efasemdir og ala á tvíræðni.

Ferguson vitnaði í Viktor Tsjirkov, yfirmann rússneska flotans, sem hefði sagt að eftirlitsferðum rússneskra kafbáta hefði fjölgað um nærri 50% síðan í fyrra. Kafbátar þeirra væru nú torséðari en eldri gerðir bátanna, þeir væru knúnir kjarnorku bæði til árása og til að skjóta langdrægum eldflaugum í varnarskyni.

Hann lagði til að andsvar NATO yrði þríþætt: Í fyrsta lagi yrðu bandalagsríkin leggja rækt við háþróaða herþjálfun. Í öðru lagi yrði herinn að vera til þess búinn að taka þátt í aðgerðum sem næðu til alls heimsins. Í þriðja lagi yrðu NATO-þjóðirnar að standa Rússum feti framar,

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …