Home / Fréttir / Bandarískur blaðamaður fangelsaður af FSB

Bandarískur blaðamaður fangelsaður af FSB

Evan Gershkovich blaðamaður.

Rússneska öryggislögreglan (FSB) tilkynnti fimmtudaginn 30. mars að hún hefði handtekið bandarískan ríkisborgara og fréttamann The Wall Street Journal, Evan Gershkovich, fyrir grun um njósnir fyrir Bandaríkjastjórn. Hann var handtekinn í Jekaterinburg.

Þetta er í fyrsta sinn sem rússnesk yfirvöld beita vestrænan blaðamann slíku ofríki frá því að Sovétríkin hurfu fyrir rúmum 30 árum.

FSB segir að blaðamaðurinn hafi unnið að því fyrir Bandaríkjastjórn að safna upplýsingum sem snerti trúnaðarmál ríkisins að því er varðar „einingu“ í rússneskum hergagnaiðnaði. Blaðamaðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 29. maí.

Haft er eftir rússneska blaðamanninum Dmitríj Kolezev sem ræddi við Gershkovich áður en hann hélt til Jekaterinburg að hann hefði ætlað að ná tali af starfsmönnum í vopna- og flugskeytasmiðju þar um hvernig þeim litist á innrásina í Úkraínu. Þá hefur einnig komið fram í Rússlandi að hann hafi ætlað að kynna sér umsvif Wagner-málaliðanna.

Fréttaskýrandinn Andreij Zakharov veltir fyrir sér hvort FSB hafi handtekið

Gershkovich til að nota í skiptum fyrir Mariu Mayer og Ludwig Gisch sem voru handtekin í Slóveníu í desember 2022, sökuð um njósnir í þágu Rússa.

Bandaríkjastjórn lýsti þungum áhyggjum vegna handtöku blaðamannsins og samtök blaðamanna í Bandaríkjunum kröfðust þess að Gershkovich yrði sleppt. Ritstjórn The Wall Street Journal hafnaði því alfarið að blaðamaðurinn hefði njósnað á vegum stjórnvalda. Hann hefði einungis sinnt störfum sem blaðamaður.

Verði Gershkovich (31 árs) fundinn sekur af rússneskum dómara kann hann að hljóta allt að 20 ára fangelsi. Hann hóf störf í Moskvu í janúar 2022.

Kremlarfræðingar segja mál Gershkovich minna á það þegar bandaríski blaðamaðurinn Nicholas Daniloff var handtekinn og sakaður um njósnir af sovéskum yfirvöldum árið 1986. Honum var síðar sleppt og hann sendur heim án þess að sæta ákæru. Daniloff sagði að yfirvöld hefðu af ásettu ráði haft sig fyrir rangri sök.

Jaroslav Shirshikov, stjórnmálafræðingur í Jekaterinburg, sagði við Reuters-fréttastofuna að hann hefði fyrir tveimur vikum rætt við Gershkovich um komu hans til borgarinnar. Þeir ætluðu að hittast 30. mars.

Hann sagði að Gershkovich hefði spurt um afstöðu heimamanna til Wagner-málaliðanna sem berjast í Úkraínu og þá hefði hann ætlað að fara til Nizhníj Tagil þar sem finna má stóra skriðdrekasmiðju, hafi hann haft áhuga á viðhorfi íbúanna til átakanna í Úkraínu. Hann hefði ekki lýst áhuga á upplýsingum um hergagnasmiðju og hann væri ekki „óvinur Rússlands“.

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …