
Frá árinu 2017 hafa 700 bandarískir landgönguliðar dvalist í Noregi. Hefur hver hópur þeirra dvalist sex mánuði í senn í landinu. Í vetrarbyrjun 2020 verður þessari tilhögun hætt, aðeins um 20 bandarískir landgönguliðar verða síðan til skiptis í Noregi en fleiri sendir til landsins í tengslum við heræfingar.
Á vefsíðunni Barents Observer segir að hér sé mikilvæg umskipti að ræða sem hafi óhjákvæmilega áhrif á hernaðarlega stöðu í Noregi.
Af hálfu yfirvalda norska hersins er ekki gert mikið úr þessari breytingu á samstarfinu við Bandaríkjamenn. Bent er á að samvinna og sameiginlegar æfingar séu áfram á dagskrá.
Búist er við að um 400 bandarískir landgönguliðar verði við æfingar í Noregi í haust og allt að 1.000 taki þátt í vetraræfingum snemma árs 2021. Bandaríski herinn verður áfram með vopna- og birgðageymslur í Noregi.
Kenneth Braithwaite, nýskipaður flotamálaráðherra Bandaríkjanna, er sagður beita sér fyrir breytingu á skipan bandaríska heraflans sem leiðir til þessarar fækkunar í Noregi. Áður en hann tók við ráðherraembætti var hann sendiherra Bandaríkjanna í Noregi.
Tone Skogen, vara-varnarmálaráðherra Noregs, segir við norska blaðið Aftenposten að það sé af og frá að Bandaríkjaher segi með þessu skilið við Noreg hér sé aðeins um „breytingu á æfingaskipulagi í Noregi“ að ræða.
Í norskum fjölmiðlum segir að líklega eigi að skoða breytingarnar í því ljósi að bandarískum landgönguliðum verði ætlað aukið hlutverk á Kyrrahafssvæðinu og gagnvart Kínverjum þar. Vísað var til stöðunnar á Kyrrahafi fyrr í ár þegar bandarískum hermönnum var fækkað um 3.000 í norsku æfingunni Cold Response.
Barents Observer bendir á að fækkun landgönguliðanna verði á sama tíma og Bandaríkjaher láti meira að sér kveða á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum.
Sumarið 2020 hafi bandaríski flugskeyta tundurspillirinn USS Roosevelt verið meira en 28 daga á siglingu norðan heimskautsbaugs.
Á vefsíðunnu er haft eftir herfræðingi að nú sé orðið að „föstum lið“ að sjá bandaríska fánann við hún á Barentshafi.
Þá beri að líta til tíðari ferða véla bandaríska flughersins á norðurslóðir. Undanfarna mánuði hafi langdrægar bandarískar sprengiflugvélar af B-1B-gerð, torséðar B-2 sprengjuvélar auk B-52-sprengivéla flogið á norðurslóðir og æft yfir Noregi og Svíþjóð.
Á vefsíðunni segir að ákvörðunin um fækkun bandarísku landgönguliðanna í Noregi gleðji ráðamenn í Moskvu. Þeir hafi hvað eftir annað gagnrýnt norsk yfirvöld fyrir of náin samskipti við yfirstjórn landgönguliðanna. Sergeij Lavrov utanríkisráðherra hafi oft sakað norsk stjórnvöld um brot á skuldbindingum um ekkert erlent herlið í Noregi á friðartímum.
Í júní 2020 sagði Vladimir Titov, rússneski vara-utanríkisráðherrann, að aukin norsk hernaðarumsvif á norðurslóðum græfu undan „friði, stöðugleika og anda trausts á svæðinu“.