Home / Fréttir / Bandarískt netöryggisfyrirtæki telur líkur á að Rússar hafi tengsl við tölvuþrjótanna gegn Macron

Bandarískt netöryggisfyrirtæki telur líkur á að Rússar hafi tengsl við tölvuþrjótanna gegn Macron

Þannig sagði CNN frá tölvuárásinni á Macron.
Þannig sagði CNN frá tölvuárásinni á Macron.

Bandarískt netöryggisfyrirtæki hefur birt nýjar upplýsingar sem það telur sýna að hópur í tengslum við Kremlverja hafi staðið að nýlegum tölvuárásum á Emmanuel Macron sem tekur við embætti forseta Frakklands af Francois Hollande.

Bandaríska fyrirtækið Flashpoint sagði föstudaginn 12. maí að 38 tölvubréf sem lekið var úr pósthólfi Macrons föstudaginn 5. maí hefðu haft tengingu við blekkingar-vefsíður sem stofnaðar voru af hópi tölvuþrjóta sem kallast Fancy Bear.

Blekkingar-vefsíður eru stofnaðar í því skyni að stela lykilorðum fólks með því að senda því krækjur til að tengjast síðunum.

Hópurinn Fancy Bear er einnig þekktur undir nafninu Pawn Storm og segja bandarískir leyniþjónustumenn að um sé að ræða hóp í tengslum við GRU, leyniþjónustu rússneska hersins.

Flashpoint bendir einnig á að sum tölvubréfanna sem var lekið beri einnig merki um tengsl við rússneskt fyrirtæki sem tengdist rússnesku leyni- og öryggisþjónustunni FSB. Flashpoint útilokar þó ekki að þarna hafi verið um vísvitandi blekkingartilraun að ræða til að flækja rússnesku mælandi aðila í málið.

Hvað sem því líður er það hóflegt mat sérfræðínga hjá Flashpoint að Fancy Bear tengist tölvuinnbrotinu og lekanum.

Flashpoint segir að rökin fyrir tengslum við Rússa styrkist vegna þess að tölvuþrjótarnir slógu ekki um sig eða kröfðust peninga fyrir stolnu gögnin. Þá telur fyrirtækið líklegt að Macron og aðrir evrópskir stjórnmálamenn verði áfram skotmörk hópsins sem vilji grafa undan stöðugleika evrópska stjórnmálakerfisins.

Franska blaðið Le Monde sagði föstudaginn 12. maí að ný-nasistar í Bandaríkjunum hefðu talið sér til ágætis á netinu að þeim hefði tekist að ná í tölvuefni gegn Macron.

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …