Home / Fréttir / Bandarískt jarðgjas til bjargar Evrópu

Bandarískt jarðgjas til bjargar Evrópu

LNG-tankskipið Excelsior lestar fljótandi jarðgas í höfn í Texas í Bandaríkjunum.

Verð á jarðgasi og þar með raforku í Evrópu hefur lækkað mikið á fáeinum dögum vegna komu skipa með jarðgas frá Bandaríkjunum en talið er að nú séu að minnsta kosti 10 tankskip með fljótandi bandarískt jarðgas (LNG) á leið til Evrópu.

Að morgni mánudags 27. desember var lágmarksverð á raforku á hollenska gasmarkaðinum komið niður í 90 evrur /MWh en í fyrri viku var það rúmlega 180 evrur /MWh. Áður en verðhækkanirnar hófust á gasi fyrir sex mánuðum var eðlilegt evrópskt gasverð um 20 evrur /Mwh. Gasverð í Evrópu hefur verið 13 sinnum hærra en í Bandaríkjunum.

Bloomberg-fréttastofan sagði á jóladag að á netsíðu um skipaferðir mætti sjá 20 skip að auki á leið í austurátt yfir Atlantshaf. Með þessi fljótandi jarðgasi leggja bandarísk fyrirtæki sitt af mörkum til að létta undir með Evrópuþjóðum vegna minnkandi magns frá Rússum sem sjá þjóðunum fyrir mestu gasi,

Gasverð í Evrópu margfaldaðist í ár þegar Rússar minnkuðu magn frá sér í sama mund og efnahagslífið í Evrópu dafnaði að nýju eftir lokanir vegna farsóttarinnar.

Áhrifanna af lækkun gasverðsins nú gætir víða auk þess sem milt veður og góður blástur fyrir vindorkuverin segir til sín til dæmis í lægra raforkuverði í Svíþjóð að sögn Nordpool, norræna uppboðsmarkaðarins með raforku.

Í suðurhluta Svíþjóðar ræðst raforkuverð mjög af verðinu á meginlandi Evrópu.

Á sama tíma og innflutningur á bandarísku gasi lækkar raforkuverð í Evrópu berast fréttir frá Reuters-fréttastofunni um að sjöunda daginn í röð renni rússneskt gas í austur frá Þýskalandi inn í Pólland. Í fréttum segir að þetta öfuga rennsli rússneska gassins sem kemur á land í Þýskalandi valdi pólitískum óróa og tengist spennunni milli Rússa og Vesturveldanna vegna Úkraínu. Vladimir Pútin Rússlandsforseti hefur oftar en einu sinni harðlega neitað því að Rússar hafi minnkað gasútflutning til Evrópu. Hann fullyrði að þýskir gas-innflytjendur selji gasið til Póllands.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …