Home / Fréttir / Bandarískir þingmenn leggja hart að Ungverjum vegna NATO-aðildar Svía

Bandarískir þingmenn leggja hart að Ungverjum vegna NATO-aðildar Svía

 

Forystumenn meðal bandarískra þingmanna vilja að Ungverjar samþykki tafarlaust aðild Svía að NATO. Í frétt Reuters segir að fimmtudaginn 1. febrúar, viku eftir að tyrkneska þingið samþykkti aðildina, hafi þingmennirnir gefið til kynna að aðgerðaleysi ungverskra stjórnvalda gagnvart umsókn Svía kynni að valda varanlegum skaða á sambandi þeirra við þing og ríkisstjórn Bandaríkjanna.

Demókratinn Ben Cardin, formaður utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, sagðist hafa „þungar áhyggjur“ af afstöðu ríkisstjórnar Ungverjalands. Hann benti á að ungverski forsætisráðherrann, Viktor Orbán, hefði dregið fram á síðustu stundu að samþykkja fjárhagsaðstoð ESB við Úkraínu (sem hann gerði loks 1. febrúar) og síðan beitti hann sér áfram gegn NATO-aðild Svía.

„Samstarfsþjóðir haga sér ekki svona. Ég velti fyrir mér hvort þeir séu þess trausts verðir að falla undir reglur okkar um undanþágu frá vegabréfsáritunum,“ sagði Cardin á blaðamannafundi. Undanþágureglurnar varðandi vegabréfsáritun ná til 41 lands og heimila borgurum þeirra að ferðast til Bandaríkjanna og dveljast þar í allt að 90 daga án áritunar í vegabréf.

Þá gáfu tveir öldungadeildarþingmenn, demókratinn Jeanne Shaheen og repúblikaninn Thom Tillis, sem eru formenn í NATO-nefnd þingdeildarinnar, út yfirlýsingu um að aðgerðarleysi Ungverja gæti varanlega spillt samskiptum þeirra við Bandaríkin og NATO. Ungverska stjórnin yrði að breyta afstöðu sinni.

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, ræddi við Viktor Orbán til hliðar við fund leiðtogaráðs ESB í Brussel 31. janúar og 1. febrúar.

„Við settumst út í horn strax eftir að leiðtogaráðsfundinum lauk, bara við tveir, og ræddum saman í nokkra stund,“ sagði Kristersson við blaðamenn sem segja að svo virðist sem samtalið hafi ekki skilað neinu.

„Hann ítrekaði að þingið kæmi saman 26. [febrúar], ekkert annað. Ég fékk ekki neina nýja dagsetningu,“ sagði sænski forsætisráðherrann og taldi ólíklegt að hann myndi hitta Orbán í Búdapest fyrir atkvæðagreiðsluna í þinginu þar. Þeir hefðu hins vegar um margt að ræða eftir að Svíar yrðu aðilar að NATO.

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …