Home / Fréttir / Bandarískir öldungadeildarþingmenn vantreysta stefnu Trumps gagnvart Rússum

Bandarískir öldungadeildarþingmenn vantreysta stefnu Trumps gagnvart Rússum

Bandaríska þinghúsið.
Bandaríska þinghúsið.

Á vegum bandaríska tímaritsins Commentary er haldið úti samnefndri vefsíðu. Þar skrifaði Max Boot þriðjudaginn 20. júní um það sem hann taldi jafngilda vantrausti öldungadeildarþingmanna beggja bandarísku flokkanna á stefnu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta gagnvart Rússum.

Í greininni sagði meðal annars:

„Ágreiningur við bandamenn frá NATO til Qatars og vanmáttur við að fullmanna þjóðaröryggisstarfslið forsetaembættisins hafa orðið til þess að draga úr trausti á Trump við stjórn utanríkismála. Þetta hefur kallað fram fyrirsjáanleg viðbrögð í þinginu – einkum öldungadeildinni – þar sem leitað er leiða til að fylla tómarúmið sem myndast hefur við mótun utanríkisstefnunnar.

Nokkrir öldungadeildarþingmenn, mest athygli hefur beinst að John McCain, hafa ferðast um heiminn til að draga nokkuð úr skaðanum sem Trump hefur valdið með óvarkárum yfirlýsingum og til að fullvissa bandamenn Bandaríkjanna frá Ástralíu til Þýskalands um að Bandaríkjamenn standi enn með þeim. Öldungadeildarþingmenn ályktuðu einróma að Bandaríkjamenn stæðu við gagnkvæmar skuldbindingar samkvæmt 5. gr. Atlantshafssáttmálans – Trump hafði reynst tregur til að árétta það. Í fyrri viku samþykkti öldungadeildin síðan með 97 atkvæðum gegn 2 að halda áfram að beita Rússa efnahagsþvingunum.

Samþykkt frumvarpsins varðandi Rússa er sérstaklega eftirtektarverð. Þar er ekki aðeins að finna hertar þvinganir á sviði orkumála og mælt fyrir um aðgerðir gegn hverjum lögaðila eða einstaklingi sem á viðskipti við leyniþjónustu eða hernaðarlegar stofnanir Rússa, þar er einnig tekið fram að forsetinn geti ekki beitt einhliða valdi sínu til að afnema núverandi þvinganir gegn Rússum. Þingið verður að samþykkja allt sem snýr að ákvörðunum um að draga úr þrýstingi á Rússa.

Með þessu er forsetinn snupraður á mjög óvenjulegan hátt. Þingið tekur venjulega ákvarðanir um efni laga varðandi efnahagsþvinganir án þess að þrengja að svigrúmi forsetans á mörgum sviðum. Það þarf því engan að undra að Rex Tillerson utanríkisráðherra sagði að ríkisstjórnin  styddi ekki frumvarpið í núverandi mynd; hann reynir að fá fulltrúadeild þingsins til að milda orðalagið og skapa forsetanum meira svigrúm. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig Paul Ryan þingforseti og forystumenn fulltrúadeildarinnar taka þessum málaleitunum; öldungadeildarþingmenn úr báðum flokkum eru óhagganlegir.

Raunar þarf ekki að undrast þetta því að Trump hefur ekki sýnt minnsta áhuga á að refsa Rússum fyrir kosninga-afskipti þeirra. Raunar hefur hann ekki heldur sýnt minnsta áhuga á að afhjúpa laumuspil þeirra. Með því að samþykkja refsiaðgerðafrumvarpið gegn Rússum einróma lýstu öldungadeildarþingmenn „vantrausti· á Rússlandsstefnu forsetans eins og hún er.“

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …