Home / Fréttir / Bandarískir landgönguliðar koma til dvalar í Noregi

Bandarískir landgönguliðar koma til dvalar í Noregi

 

Bandarísku landgönguliðarnir á leið til búða sinna.
Bandarísku landgönguliðarnir á leið til búða sinna.

Ráðgert er að allt að 330 bandarískir landgönguliðar verði við þjálfun og æfingar í Noregi. Meirihluti þeirra kom til herstöðvarinnar Værnes í Mið-Noregi með flugvél bandaríska hersins mánudaginn 16. janúar. Rússar gagnrýna þessa nýju tilhögun sem reist er á tvíhliða samningi Norðmanna og Bandaríkjanna.

Í frétt The New York Times (NYT) um komu landgönguliðanna til Noregs er minnt á að Rússar hafi ögrað þjóðum í Norður-Evrópu undanfarin misseri. Nefnt er að í október 2014 hafi óþekkt skip sést í skerjagarðinum fyrir utan Stokkhólm. Þetta hafi leitt til mestu aðgerða sænska hersins frá lokum kalda stríðsins og ásakana um að Rússar stunduðu njósnir við landið.

Í apríl 2015 sást neðamsjávar farartæki við Finnland. Finnski flotinn kastaði djúpsprengjum að óþekkta hlutnum. Hafði ekki verið gripið til slíks í rúm 10 ár.

Stjórnvöld Litháens tilkynntu mánudaginn 16. janúar að þau ætluðu að nota styrki frá Evrópusambandinu til að reisa girðingu á landamærunum við rússnesku hólmlenduna Kaliningrad í öryggisskyni og til að hindra smygl. Framkvæmdir við 130 km langa girðinguna sem talin er að kosti 3,7 milljarða ísl. kr. hefjast í vor og þeim á ljúka fyrir áramót.

Vegna komu bandarísku landgönguliðinna ræddi fréttamaður norska ríkisútvarpsins, NRK, við Mariu Zakharovu, upplýsingafulltrúa rússneska utanríkisráðuneytisins, sem sagði að þetta mundi „örugglega ekki bæta samskiptin“.  Nú reyndi á þessi samskipti. Í stað þess að þróa efnahagssamvinnu veldu Norðmenn þann kost að kalla bandaríska hermenn til lands síns.

Ine Eriksen Søreide, varnarmálaráðherra Noregs, sagði sunnudaginn 15. janúar að Rússar hefðu enga ástæðu til að óttast dvöl landgönguliðanna. Hún væri ekki í andstöðu við stefnu Norðmanna um að ekki yrðu erlendar herstöðvar í landi þeirra, dvöl landgönguliðanna takmarkaðist við sex mánuði og síðan yrði tekin ákvörðun um framhaldið.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …