Home / Fréttir / Bandarískir hermenn æfa í Finnlandi

Bandarískir hermenn æfa í Finnlandi

 

Bandarískum Stryker-bryndrekum ekið um vegi Finnlands.
Bandarískum Stryker-bryndrekum ekið um vegi Finnlands.

Bandarískir hermenn hófu mánudaginn 2. maí æfingar með finnska hernum í sveitarfélaginu Kankaanpää í vesturhluta Finnlands. Í frétt finnska rikisútvarpsins YLE um æfingarnar eru þær sagðar „umdeildar·.

Æfingarnar eru að mestu við þorpið Niinisalo. Þar er bækistöð stórskotaliðssveitar, hluta Pori stórfylkisins í varnarher Finnlands.

Um 2.300 finnskir og 185 bandarískir hermenn taka þátt í æfingunum og eru mörg hundruð farartæki notuð í þeim. Bandaríkjamennirnir eru til dæmis með um 20 bryndreka af Stryker-gerð.

Pekka Purtonen undiroffursti, næst æðsti stjórnandi æfinganna, sagði YLE að þátttaka Bandaríkjamannanna skipti miklu fyrir finnsku þátttakendurnar, þá sem gegna herskyldu, eru varaliðar eða hafa fasta stöðu í hernum.

„Á þennan hátt kynnast bæði þjálfarar og þeir sem eru í þjálfun kröfum sem þeir geta nýtt til viðmiðunar og þá læra þeir hugsanlega líka nýjar aðferðir,“ sagði Purtonen.

Hann sagði að bandarískir hermenn yrðu ekki á ferli á götum  Kankaanpää.

„Tímarammi æfinganna er mjög þröngur. Í raun fá hermennirnir varla tóm til að yfirgefa æfingasvæðið og þeir fá engan frítíma,“ sagði undiroffurstinn til skýringar.

Í frétt YLE segir að hermennirnir sem taka þátt í æfingunum komi í hópum til Kankaanpää og Niinisalo. Eru ökumenn og aðrir vegfarendur varaðir við töfum á umferð vegna herflutninganna. Niinisalo er í Satakunta-héraði um 85 km fyrir norðvestan Tampere.

Heræfingarnar standa til föstudagsins 13. maí.

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …