Home / Fréttir / Bandaríski sjóherinn vill endurnýja flugskýli fyrir kafbátaleitarvélar

Bandaríski sjóherinn vill endurnýja flugskýli fyrir kafbátaleitarvélar

Poseidon 8 kafbátaleitarvél
Poseidon 8 kafbátaleitarvél

Þeim sem fylgst hafa með framvindu öryggismála í Evrópu og aukinni kröfu ríkja á norðurvæng NATO um aukið framlag Bandaríkjamanna á svæðinu kemur ekki á óvart að bandaríska varnarmálaráðuneytið fari fram á fjárveitingu til að búa í haginn fyrir sjóher og flugher á Keflavíkurflugvelli. Það er jafnframt í fullu samræmi við tvíhliða samkomulagið sem gert var á grundvelli varnarsamningsins frá 1951 við brottför varnarliðsins fyrir tæpum 10 árum.

Í fjárlögum ársins 2017 fer bandaríska varnarmálaráðuneytið fram á fjórföldun fjárveitinga til að tryggja varnir Evrópu. Hluti hækkunarinnar á að renna til þess að endurnýja flugskýli fyrir kafbátaleitarvélar. Það var reist og hannað fyrir P-3C Orion-skrúfuvélar en nú hefur bandaríski flotinn tekið Boeing-þotur í notkun við kafbátaleit og kallast þær Poseidon 8.

Þriðjudaginn 9. Febrúar birtist eftirfarandi frétt á mbl.is:

„Banda­ríski sjó­her­inn hef­ur óskað eft­ir fjár­veit­ingu á fjár­lög­um 2017 til að taka í gegn flug­skýli á Kefla­vík­ur­flug­velli, þar sem til stend­ur að hýsa P-8 Poseidon; flug­vél sem notuð er til að hafa eft­ir­lit með rúss­nesk­um kaf­bát­um í Norður-Atlants­hafi.

Þetta kem­ur fram hjá hermiðlin­um Stars and Stripes, sem starfar með heim­ild banda­ríska varn­ar­málaráðuneyt­is­ins.

Í frétt miðils­ins seg­ir m.a. að sjó­her­inn sendi reglu­lega P-3 Ori­on vél­ar frá Sikiley til Kefla­vík­ur en P-8 vél­in muni gegna sama hlut­verki þegar búið er að taka flug­skýlið í gegn. End­ur­bæt­urn­ar fela m.a. í sér nýj­ar lagn­ir, gól­f­efni og skol­un­ar­stöð.

Blaðamaður Stars and Stripes vitn­ar í ónafn­greind­an heim­ild­ar­mann, sem seg­ir að enn sem komið er hafi sjó­her­inn ein­göngu áhuga á að vera hér með flug­vél­ar í stutt­um eft­ir­lits­verk­efn­um en að breyt­ing gæti orðið þar á.

mbl.is sagði frá því í sept­em­ber sl. að Robert O. Work, aðstoðar­varn­ar­málaráðherra Banda­ríkj­anna, hefði heim­sótt ör­ygg­is­svæðið á Kefla­vík­ur­flug­velli og sagt í aðdrag­anda heim­sókn­ar­inn­ar að hann vildi skoða fyrr­nefnt flug­skýli og full­vissa sig um að það væri not­hæft.

Frétt mbl.is: Skoðaði mann­virki á ör­ygg­is­svæðinu

Þá var haft eft­ir Work að stækka þyrfti dyrn­ar á flug­skýl­inu þar sem stélið á P-8 vél­un­um væri hærra en á P-3 vél­un­um.“

Rétt er að geta þess að fyrsta fréttin hér á landi um áhuga Bandaríkjastjórnar á að endurnýja flugskýlið á Keflavíkurflugvelli birtist hér á síðunni vefsugerc33.sg-host.com

Vegna þessarar fréttar mbl.is birti utanríkisráðuneytið eftirfarandi á vefsíðu sinni:

„Af gefnu tilefni vegna frétta um fyrirætlanir bandaríska sjóhersins vill utanríkisráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri:
Engar viðræður eiga sér stað á milli Íslands og Bandaríkjanna um varanlega staðsetningu bandarísks liðsafla á Íslandi. Hins vegar er ljóst að umhverfi öryggismála í Evrópu hefur breyst mikið á umliðnum árum og, í því ljósi, eins og utanríkisráðuneytið hefur áður greint frá, hafa eðlilega átt sér stað samtöl um mögulega aukin umsvif Bandaríkjanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins á norðanverðu Atlantshafi og Íslandi í samræmi við sameiginlegar varnarskuldbindingar.“

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …