
Þeim sem fylgst hafa með framvindu öryggismála í Evrópu og aukinni kröfu ríkja á norðurvæng NATO um aukið framlag Bandaríkjamanna á svæðinu kemur ekki á óvart að bandaríska varnarmálaráðuneytið fari fram á fjárveitingu til að búa í haginn fyrir sjóher og flugher á Keflavíkurflugvelli. Það er jafnframt í fullu samræmi við tvíhliða samkomulagið sem gert var á grundvelli varnarsamningsins frá 1951 við brottför varnarliðsins fyrir tæpum 10 árum.
Í fjárlögum ársins 2017 fer bandaríska varnarmálaráðuneytið fram á fjórföldun fjárveitinga til að tryggja varnir Evrópu. Hluti hækkunarinnar á að renna til þess að endurnýja flugskýli fyrir kafbátaleitarvélar. Það var reist og hannað fyrir P-3C Orion-skrúfuvélar en nú hefur bandaríski flotinn tekið Boeing-þotur í notkun við kafbátaleit og kallast þær Poseidon 8.
Þriðjudaginn 9. Febrúar birtist eftirfarandi frétt á mbl.is:
„Bandaríski sjóherinn hefur óskað eftir fjárveitingu á fjárlögum 2017 til að taka í gegn flugskýli á Keflavíkurflugvelli, þar sem til stendur að hýsa P-8 Poseidon; flugvél sem notuð er til að hafa eftirlit með rússneskum kafbátum í Norður-Atlantshafi.
Þetta kemur fram hjá hermiðlinum Stars and Stripes, sem starfar með heimild bandaríska varnarmálaráðuneytisins.
Í frétt miðilsins segir m.a. að sjóherinn sendi reglulega P-3 Orion vélar frá Sikiley til Keflavíkur en P-8 vélin muni gegna sama hlutverki þegar búið er að taka flugskýlið í gegn. Endurbæturnar fela m.a. í sér nýjar lagnir, gólfefni og skolunarstöð.
Blaðamaður Stars and Stripes vitnar í ónafngreindan heimildarmann, sem segir að enn sem komið er hafi sjóherinn eingöngu áhuga á að vera hér með flugvélar í stuttum eftirlitsverkefnum en að breyting gæti orðið þar á.
mbl.is sagði frá því í september sl. að Robert O. Work, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefði heimsótt öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli og sagt í aðdraganda heimsóknarinnar að hann vildi skoða fyrrnefnt flugskýli og fullvissa sig um að það væri nothæft.
Frétt mbl.is: Skoðaði mannvirki á öryggissvæðinu
Þá var haft eftir Work að stækka þyrfti dyrnar á flugskýlinu þar sem stélið á P-8 vélunum væri hærra en á P-3 vélunum.“
Rétt er að geta þess að fyrsta fréttin hér á landi um áhuga Bandaríkjastjórnar á að endurnýja flugskýlið á Keflavíkurflugvelli birtist hér á síðunni vefsugerc33.sg-host.com
Vegna þessarar fréttar mbl.is birti utanríkisráðuneytið eftirfarandi á vefsíðu sinni:
„Af gefnu tilefni vegna frétta um fyrirætlanir bandaríska sjóhersins vill utanríkisráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri:
Engar viðræður eiga sér stað á milli Íslands og Bandaríkjanna um varanlega staðsetningu bandarísks liðsafla á Íslandi. Hins vegar er ljóst að umhverfi öryggismála í Evrópu hefur breyst mikið á umliðnum árum og, í því ljósi, eins og utanríkisráðuneytið hefur áður greint frá, hafa eðlilega átt sér stað samtöl um mögulega aukin umsvif Bandaríkjanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins á norðanverðu Atlantshafi og Íslandi í samræmi við sameiginlegar varnarskuldbindingar.“