
James DeHart, nýskipaður norðurslóðastjóri innan bandaríska stjórnarráðsins, sagði miðvikudaginn 5. ágúst að markmið Bandaríkjamanna væri að lágspenna ríkti á norðurslóðum (e. Arctic) á sama tíma og loftslagsbreytingar og ólíkir geopólitískir hagsmunir kynnu að leiða til vaxandi stórveldakeppni.
„Markmið okkar fyrir svæðið er að það verði friðsælt og lágspennusvæði og að náin samvinna verði meðal norðurskautsþjóðanna,“ sagði DeHart í upphafi blaðamannafundarins.
„Við viljum sjá efnahagslegan vöxt og þróun sem auðveldar líf heimamanna, þar á meðal frumbyggja á svæðinu, og að vöxturinn sé umhverfislega sjálfbær í anda góðra stjórnarhátta og gagnsæis,“ sagði James DeHart.
Levon Sevunts sem skrifar frétt Radio Canada International um blaðamannafundinn segir að málflutningur DeHarts hafi verið allt annar og mildari en það sem Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur boðað um þróun mála á norðurslóðum. Fræg í þessu sambandi er ræða sem Pompeo flutti í maí 2019 fyrir utanríkisráðherrafund Norðurskautsráðsins í Rovaniemi í Finnlandi. Hann var þar ómyrkur í máli um framgöngu Rússa og Kínverja.
DeHart hefur starfað lengi í bandarísku utanríkisþjónustunni og býr yfir mikilli reynslu á sviði varnar- og öryggismála. Þar til hann var skipaður norðurslóðastjóri á dögunum hafði embættið verið laust síðan snemma árs 2017 þegar Robert Papp, fyrrv. yfirmaður bandarísku strandgæslunnar, hvarf úr því.
DeHart sagði að líta ætti á skipun sína í embættið í tengslum við ýmislegt annað á sviði utanríkis- og varnarmála sem gerst hefði nýlega í Washington til að skerpa bandaríska hagsmunagæslu á norðurslóðum. Segja mætti að sumarið 2020 markaði þar þáttaskil.
Hann benti á að á undanförnum tveimur mánuðum hefði Bandaríkjastjórn kynnt alhliða og samhæfða diplómatíska stefnu og aðgerðir í norðurslóðamálum. Þar á meðal væri tilkynning frá forsetaembættinu frá 9. júní 2020 sem boðaði að frá og með 2029 ætti Bandaríkjastjórn flota ísbrjóta, sagði DeHart.
Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur opnað ræðisskrifstofu í Nuuk á Grænlandi og sagði DeHart að það væri eftirtektarvert skref í ljósi þröngs fjárhags ráðuneytisins.
Mike Pompeo utanríkisráðherra var í Kaupmannahöfn á dögunum og bar norðurslóðir hátt í samtölum hans við danska ráðamenn auk þess sem hann hitti utanríkisráðherra Færeyja og Grænlands.
Þá benti DeHart á að bandaríski flugherinn hefði birt norðurslóðastefnu sína í júlí.
Bandaríski norðurslóðastjórinn sagði að tvær meginástæður væru fyrir þessum þunga í norðurslóðastefnu Bandaríkjastjórnar nú:
„Í fyrsta lagi erum við nú vitni að verulega dramatískum umhverfisbreytingum á öllu svæðinu og breytingum sem valda heimamönnum miklum erfiðleikum en leiða einnig til þess að auðveldara er að komast inn á opnar norðurslóðir og þar eru ný tækifæri til að nýta auðlindir, til námuvinnslu á hafsbotni, ferðaþjónustu og siglinga.“
DeHart sagði að í öðru lagi mótaðist afstaða Bandaríkjastjórnar af geópólitiskum breytingum á svæðinu:
„Rússar eru norðurskautsþjóð sem lætur meira að sér kveða og eykur öryggisumsvif sín á norðurslóðum og Kínverjar sem eru ekki norðurskautsþjóð en eiga þar skýra hagsmuni og hafa sýnt áhuga á fjárfestingu þar og öðrum viðskiptum.
Þegar litið er til þess hvernig Kínverjar hafa staðið að fjárfestingu og viðskiptum annars staðar í heiminum held ég að við þurfum að sýna mikla aðgát og vera á verði þegar litið er til þess hvaða áhrif þetta kynni að hafa á þá miklu gæðastjórnarhætti sem við öll viljum að einkenni norðurslóðir.“
DeHart vék einnig að samstarfi Rússa og Kínverja á norðurslóðum og sagði þar réðu frekar skammtíma viðhorf en strategísk til langs tíma:
„Hér er um tvær þjóðir að ræða og hagsmunir þeirra falla ekki alveg saman: Rússar eru norðurskautsþjóð og ég tel þá vilja verja stöðu sína sem norðurskautsþjóð en Kínverjar vilja láta meira að sér kveða.“
Hann hafnaði einnig fullyrðingum kínverskra embættismanna um að Kína væri „nágrannaríki norðurslóða“. Stysta fjarlægð milli norðurslóða og Kína væri um 1.450 km.
„Þeir eru ekki hluti norðurslóða og ég er ekki viss um að Rússar fagni endilega víðtækum afskiptum Kínverja af norðurslóðum. Mér sýnist að ólíkir hagsmunir hvors um sig gætu sett samvinnu þeirra skorður til langs tíma litið.“
James DeHart sagði Bandaríkjamenn fylgjast náið með vaxandi rússneskum hernaðarumsvifum á norðurslóðum:
„Við verðum að beina athygli að þessu og við viljum að þetta sé samvinnusvæði á sviði vísinda, leitar og björgunar og þekkingar en jafnframt viðurkennum við að norðurvængur NATO er á norðurslóðum. Það er einnig sjónarhorn okkar á svæðið.“
Danskur blaðamaður spurði James DeHart um skoðun hans á áformum Dana um að auka hernaðarlega viðveru og eftirlit á Grænlandi frá árinu 2023 og hvort hann teldi nóg að gert með því að auka dönsk útgjöld til varnar Grænlandi um 250 milljón dollara á ári.
DeHart svaraði þessu almennum orðum og taldi allt eftirlit á Grænlandi eins og á öllum norðurslóðum mikilvægt en samstarfsmenn sínir í bandaríska varnarmálaráðuneytinu væru betur til þess fallnir að svara spurningunni á nákvæmari hátt.
Sami blaðamaður fullyrti að nú væri staðan þannig að um sundið milli Grænlands og Íslands gætu kafbátar siglt eftirlitslaust að vild. Danir ætluðu að auka neðansjávareftirlit frá 2027, hvort Bandaríkjamenn gætu ekki lagt eitthvað af mörkum til eftirlitsins með Dönum.
DeHart sagði að öryggi á norðurslóðum væri ekki unnt að skilja frá Norður-Atlantshafi og þess vegna skipti GIUK-hliðið og þar með Grænlandssund sköpum fyrir varnir siglingaleiða og flutning liðsafla á sjó á hættustund. Einmitt í þessu ljósi teldu Bandaríkjamenn norðurslóðir svo mikilvægar með tilliti til öryggissjónarmiða. Hann teldi að í samvinnu við bandamenn sína gætu Bandaríkjamenn staðist kröfunar sem til þeirra væru gerðar.