Home / Fréttir / Bandaríski flugherinn kynnir fyrstu norðurslóðastefnu sína

Bandaríski flugherinn kynnir fyrstu norðurslóðastefnu sína

Frá bandarísku Thule-herstöðinni á Grænlandi.
Frá bandarísku Thule-herstöðinni á Grænlandi.

Bandaríski flugherinn birti í fyrsta sinn í sögu sinni sérstaka norðurslóðastefnu [Arctic strategy] þriðjudaginn 21. júlí. Barbara Barrett, flughermálaráðherra Bandaríkjanna, sagði við birtingu stefnuskjalsins að norðurslóðir væru „úrslitasvæði“ fyrir varnir Bandaríkjanna og hagsmuna þeirra.

Þegar litið er til viðveru á vegum bandaríska varnarmálaráðuneytisins á norðurslóðum eru 79% hennar undir handarjaðri flughersins. Fréttaskýrendur segja að margt af því sem í skjalinu stendur sé samhljóða því sem birst hafi í skjölum frá varnarmálaráðuneytinu og heimavarnaráðuneytinu sem fer með yfirstjórn bandarísku strandgæslunnar.

Bent er á að Rússar og Kínverjar láta meira að sér kveða á svæðinu en áður bæði hernaðarlega og efnahagslega. Hvatt er til þess að varðstaða sé aukin og tryggð á öllum sviðum í lofti, geimnum og í netheimum. Áréttað er mikilvægi samstarfs við bandalagsþjóðir og æfinga við heimskautsaðstæður.

Heather Conley, sérfræðingur bandarísku hugveitunnar Center for Strategic and International Studies (CSIS), sagði stefnuskjalið „hressilega skýrt og fróðlegt“.

Hún sagði við vefsíðuna Arctic Today að í stefnunni væri ekki látið við það sitja að árétta að Bandaríkin væru norðurskautsland og þess vegna væri norðurslóðastefna nauðsynleg heldur væri hlutverki Bandaríkjanna lýst á þann veg að það „skipti strategískt máli“. Þar væri að finna ýmsar nýjar hugmyndir til dæmis um fjarskiptasamvinnu á norðurslóðum, um endurnýjun tækjabúnaðar og heimskautastöðvar. Þá er fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á herstöðvar Bandaríkjanna, til dæmis áhrif breytinga á sífrera á Thule-herstöðina nyrst á Grænlandi.

Conley saknar þess að ekki skuli lögð meiri áhersla á fælingarmátt en athyglinni þess í stað beint að varðstöðu. Til dæmis hefði hún vænst ábendinga um nauðsyn þess að uppfæra NORAD-loftvarnakerfið fyrir Norður-Ameríku.

Í stefnuskjalinu er geimgæsla eða eftirlit í fyrsta sinn hluti af öryggisstefnu fyrir norðurslóðir.

John Raymond, hershöfðingi, aðgerðarstjóri bandaríska geimhersins (U.S. Space Force) sagði eldflaugavarnir eitt lykilhlutverka geimheraflans og „norðurslóðir framvarnarsvæðið“ til að sinna því hlutverki frá stöðvum í Alaska og Grænlandi. Hann sagði norðurslóðasvæðið einnig kjörið til að stjórna og fylgjast með gervitunglum á sporbaug um póla jarðar.

Barrett minnti á hernaðarlega og efnahagslega uppbyggingu Rússa á norðurslóðum en beindi athyglinni sérstaklega að Kínverjum og sagði þá reyna að gera sig almennt gjaldgenga sem norðurslóðaþjóð í því skyni að komast yfir náttúruauðlindir, þar á meðal olíu og sjaldgæfa málma.

David Goldfein, hershöfðingi, formaður flugherráðsins, spurði þegar rætt var um Rússa:

„Eigum við ef til vill meiri samleið með þeim fyrir ofan 66. baug en neðan? Sýnum við hugmyndaflug í viðræðum okkar við Rússa hljóta að finnast einhverjir fletir þar sem við eigum sameiginlega hagsmuni og það sé betra fyrir okkur að starfa saman en að gera það ekki.“

Hershöfðinginn sagði að markmið stefnuskjalsins væri að efla hernaðarmátt Bandaríkjanna í norðri til að diplómatarnir yrðu búnir betri vopnum til að bæta friðinn og bæta stöðu Bandaríkjanna og bandamanna þeirra og samstarfsaðila.

 

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …