
Bandaríski flugherinn hefur fengið heimild til að gera lokatilraunir með fyrsta ofurhljóðfráa vopnið sem hann eignast – stýriflaug sem skotið er úr lofti á skotmark á landi og fer með meira en fimm sinnum hraða hljóðsins.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur varið hundruð milljónum dollara undanfarin ár til að þróa ofurhljóðfrá vopn. Bandaríkjamönnum er kappsmál að halda forystu á sviði ofurhljóðfrárra vopna einkum með hliðsjón af framförum hjá Rússum og Kínverjum við gerð slíkra vopna.
Vopn Bandaríkjamanna heitir á ensku Air-Launched Rapid Response Weapon, eða ARRW. Um er að ræða flaug sem skotið er frá flugvél og er flaugin knúin af eldflaugahreyfli sem getur náð Mach 8 hraða, það er áttföldum hraða hljóðsins. Flaugin er hönnuð til að verða flutt með B-52 Stratofortress sprengjuþotunum.
Þróun ARRW hófst fyrir alvöru árið 2018 þegar varnarmálaráðuneytið gerði við Lockheed Martin um næstum 500 milljón dollara þróunar- og verksamning. Ári síðar var gerð forprófs tilraun með vopnið.
Nú er flugherinn tilbúinn til að stíga næsta skrefið, það er að skjóta flauginni í tilraunaskyni eins og um notkun hennar sé að ræða. Er líklegt að tilraunin verði gerð núna fyrir lok þessa árs. Flugherinn reiknar með að ARRW-flugin verði tilbúin til notkunar síðla árs 2023.
Bandaríkjaher ræður ekki enn yfir neinum ofurhljóðfráum vopnum. Rússar segja að þeir hafi nú þegar notað ofurhljóðfráar Kinzhal-flaugar sínar í Úkraínustríðinu. Bandaríkjaher hefur ekki opinberlega staðfest rétttmæti þessara fullyrðinga Rússa.
Helsti ávinningurinn af ofurhljóðfráum flaugum er að þær draga lengra en aðrar stýriflaugar. Talið er að skjóta megi ARRW 1.000 mílur, um 1.600 km, þegar flaugarnar verða teknar í notkun.
Þá fljúga ofurhljóðfráu flaugarnar einnig hærra upp í himinhvolfið en aðrar flaugar. Þar er loftið þunnt og erfiðara að verjast flaugunum en þeim sem fara hægar og neðar. Þá er auðvelt að stýra þeim upp eða niður eða til hvorrar hliðar sem er, að því leyti hafa þær einnig yfirburði gagnvart öðrum flaugum.
Heimild: Stars and Stripes