Home / Fréttir / Bandaríski flotinn fer fram á meira fjármagn

Bandaríski flotinn fer fram á meira fjármagn

Teikning af kafbáti af Columbia-gerð
Teikning af kafbáti af Columbia-gerð

Hefð er fyrir því í bandaríska varnarmálaráðuneytinu (Pentagon) að skipta því fjármagni sem ráðuneytið fær á fjárlögum nokkurn veginn jafnt á milli þriggja meginstoða heraflans.  Þannig fær landherinn um þriðjung og flotinn og flugherinn fá hvor sinn þriðjunginn.  Í greinum í vefmiðlinum Defense News er fjallað um að yfirmenn í flotanum haldi því fram að hann þurfi meira fé eigi flotinn að geta sinnt verkefnum sínum.  Vitnar Defense News í nýleg ummæli tveggja ráðamanna í flotanum máli sínu til stuðnings.  Annar er Thomas B. Modly settur flotamálaráðherra Bandaríkjanna.  Hinn er Michael Gilday flotaforingi  sem er yfirmaður aðgerðastjórnar flotans (e. Chief of Naval Operations).  Hann lét ummælin falla á nýlegri námsstefnu um flotamál.

Columbia kjarnaflaugakafbátar (e. Ballistic missile submarines)

Að sögn Michaels Gildays eru tvær meginástæður fyrir því að flotinn þarf nú meira fjármagn.  Önnur er sú að flotinn er að endurnýja langdræga kjarnaflaugakafbáta sína.  Líkt og nafnið gefur til kynna bera þeir kjarnorkuvopn og eru ein stoð fælingarstefnu Bandaríkjamanna.  Núverandi kjarnaflaugakafbátar eru af Ohio gerð og voru hannaðir á áttunda áratugnum.  Um er að ræða 14 kafbáta og voru þeir teknir í notkun á níunda og tíunda áratugnum.  Elstu bátarnir í hópnum eru því komnir til ára sinna og er ætlunin að leggja þeim, einum á ári, frá 2027.

Bandaríkjafloti hyggst skipta þeim út fyrir 12 báta af Columbia gerð.  Verið er að hanna þá og er áætlað að smíði hefjist á næsta ári.  Taka á fyrsta kafbátinn í notkun árið 2031.  Kjarnaflaugakafbátar eru afar dýr vopn og mun hver Columbia bátur kosta um sex milljarða Bandaríkjadala.  Michael Gilday flotaforingi minnti á þetta á fyrrnefndri námsstefnu og nefndi jafnframt að þegar verið var að taka Ohio kafbátana í notkun hafi meira fé verið varið til flotans.

Áhyggjur af flotamætti andstæðinganna

Hin ástæðan fyrir því að bandaríski flotinn fer fram á meira fjármagn er sú að þar á bæ hafa menn talsverðar áhyggjur af kínverska og rússneska flotanum.  Til að bregðast við þessum hættum, og öðrum, er flotinn að þróa nýja varnarstefnu sem á ensku erlýst með orðunum „Distributed Maritime Operations Concept“.  Á íslensku mætti þýða þetta sem dreifðar aðgerðir á sjó.

Í stuttu máli snýst nýja stefnan um að auka slagkraft herskipanna  í flotanum og bæta samskipti innan flotaeininga.  Einnig á að taka ný vopn í notkun, t.d. ýmsar gerðir af drónum.  Nýja stefnan krefst meðal annars fleiri skipa í bandaríska flotann.  Bandaríkjastjórn leggur áherslu á að stækka flotann um rúmlega 20%.  Á sama tíma má ekki draga úr faglegum kröfum innan hans enda eru menn þar minnugir nýlegra óhappa sem rakin hafa verið til vandamála í skipulagi flotans.  Eigi að vera hægt að fjölga skipum og viðhalda gæðum áhafna þeirra þarf flotastjórnin meira fé að mati yfirmanna þar.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …