
Jyllands Posten birtir föstudaginn 12. febrúar frétt um að á næstunni sendi Bandaríkjastjórn fjórar sprengjuvélar og 200 hermenn til norsku flugherstöðvarinnar í Ørland. Segir blaðið þetta sögulegan viðburð: Í fyrsta sinn á síðari tímum haldi bandaríski flugherinn úti sprengjuvélum í Noregi.
Bandaríkjamenn færi sig ekki aðeins nær Arktis, norðurslóðum, heldur geti þeir með skemmri fyrirvara brugðist við rússneskum sóknaraðgerðum á svæðinu þar sem spenna aukist.
Blaðið snýr sér til sérfræðingsins Kristians Søbys Kristensens hjá Center for Militære Studier – Miðstöð herfræðilegra rannsókna við Kaupmannahafnarháskóla sem segir:
„Þetta er valdajafnvægisleikur þar sem Bandaríkjamenn hafa vilja til að sýna Rússum að þeir geti aukið viðveru sína – einnig með mikilvægum vopnabúnaði, þessar flugvélar eru til marks um það – í takt við það sem Rússar gera til að styrkja og auka eigin viðveru umhverfis herstöðvarnar á Kólaskaga.“
Norðmenn eiga land að Kólaskaganum þar sem Rússar hafa aukið herafla sinn jafnt og þétt undanfarin ár bæði flota og flugher auk kjarnorkuvopna á landi.
Vegna hernaðarlegs mikilvægis stöðvanna á Kólaskaga leggja Rússar mikið kapp á að halda annarra þjóða herjum sem lengst frá honum og Barentshafi. Rætt er um „brjóstvörn“ Kólaskaga og kafbátanna í Barentshafi þegar litið er til hernaðarumsvifa Rússa og ferða skipa þeirra og flugvéla út á Norður-Atlantshaf allt að austurströnd Íslands.
Bandaríkjamenn líta á Barentshaf sem opið haf alþjóðasiglinga og sætta sig ekki við að Rússar reyni að sölsa það undir sig á sama hátt og Kínverjar sækjast eftir að ráða ferðum skipa um Suður-Kínahaf.
Um 70% af kjarnorkuvopnum Rússa eru í geymslum á Kólaskaga að sögn Jyllands Posten. Öryggisráðstafanir vegna kjarnorkuvopnanna hafa aukist undanfarin ár með nýjum herstöðvum, nýjum ratsjárkerfum og nýjum flugvélum og kafbátum.
Kristian Søby Kristensen spáir því að Bandaríkjamenn láti meira að sér kveða hernaðarlega í norðri á næstu árum en til þessa. Eftirlit með rússneskum kafbátum aukist. Ferðum langdrægra flugvéla sem geta borið kjarnorkuvopn fjölgi. Æfingar verði stundaðar frá mismunandi flugvöllum til að fjölga kostum kæmi til átaka.
Í Jyllands Posten er einnig rætt við Jon Rahbek-Clemmensen, lektor hjá Center for Arktiske Sikkerhedsstudier við Forsvarsakademiet – Miðstöð rannsókna öryggismála á norðurslóðum við Háskóla hersins. Hann segir að engin grundvallarbreyting verði í Arktis við komu bandarísku sprengjuvélanna. Þar sé aðeins um að ræða skref á ferð sem hófst fyrir löngu. Á hinn bóginn sé óljóst hve vélarnar verði lengi í Noregi.
Jon Rahbek-Clemmensen efast hins vegar ekki um að spennan á svæðinu eykst við komu bandarísku vélanna:
„Vafalaust svara Rússar á einhvern hátt sem sýnir að um þessar mundir standa menn frammi fyrir slæmum kostum í öryggismálum Arktis: Rússar og Bandaríkjamenn fylgjast náið hvor með öðrum og óttast að hinn nái dálitlu forskoti. Þá reyna þeir að jafna bilið og með því vekja þeir mikinn ótta hjá gagnaðilanum sem finnst að hann verði að svara á einhvern hátt.“
Kristian Søby Kristensen, sérfræðingur hjá Center for Militære Studier, hefur þetta að segja um framtíðina:
„Hún ræðst af því hvort viðvera Bandaríkjamanna hefur fælingaráhrif á Rússa og aftrar þeim frá að grípa til einhvers sem er ekki í hag Norðmanna, Bandaríkjamanna eða Vestursins. Eða hvort raunin verður sú að vænisjúkir Rússar verði enn hræddari og þar með hervæðist þeir enn frekar, vígbúnaðarkapphlaup hefjist og spenna magnist samhliða hættu á atvikum sem kunna að stigmagnast. Hvað sem öðru líður er eldmóðurinn áhyggjuefni – án þess þó að þriðja heimsstyrjöldin sé handan við hornið.“