
Tvær bandarískar sprengjuþotur flugu frá Ellsworth-flugherstöðinni í Suður-Dakota í Bandaríkjunum til æfinga með þotum sænska flughersins og sænskum loftvarnasveitum á landi á Vidsel-æfingasvæðinu um 900 km fyrir norðan Stokkhólm, sagði fréttatilkynningu bandaríska flughersins fimmtudaginn 21. maí.
Leiðangur vélanna tók 23 klukkustundir og fengu þær eldsneyti á lofti frá vélum sem komu frá Bretlandi og Hollandi.
David Doss, ofursti, yfirmaður 28. sprengjuvéla sveitarinnar, sagði mikils virði að fá að æfa á nýjum slóðum og sanna þar með enn sveigjanleika B1-B-sprengjuvélanna sem tóku nú fyrsta sinn í 35 ára sögu sinni þátt í æfingum með sænska flug- og landhernum.
Svíarnir flugu Gripen-orrustuþotum sem Saab smíðaði. Þær eru fjölhæfar og í eigu nokkurra NATO-ríkja. Breskar orrustuþotur flugu við hlið B-1-vélanna á leið þeirra um breska lofthelgi.
Á norðurslóðum æfðu bandarísku flugmennirnir einnig með flugmönnum norska hersins á nýjum F-35-orrustuþotum.
Bandaríski flugherinn hefur tekið upp nýja stefnu við beitingu sprengivéla sinna. Hún tekur mið að nýrri þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna þar sem strategískri athygli er beint að Kína og Rússlandi og áhersla lögð á að ekki sé með neinni vissu unnt að segja fyrir um hvað kunni að gerast.