
Að minnsta kosti fjórar F-35-orrustuþotur og þrjár F-16-orrustuþotur úr norska flughernum flugu hlið við hlið í norðurátt með bandarískum B-52-sprengjuvélum miðvikudaginn 3. júní að sögn norska flughersins.
Æfingaflugið var aðeins tveimur vikum eftir að sænskar og norskar orrustuþotur flugu við bandarískrar B-1B sprengjuvélar yfir Skandinavíu-skaga. Miðvikudaginn 3. júní flugu vélarnar mun lengra í norðurátt.
„Bandaríkjamenn eru nánustu bandamenn okkar. Ferð vélarinnar sýnir skuldbindingu Bandaríkjamanna í þágu varna Evrópu. Bandarískur herafli verður að efna til æfinga í Evrópu með bandamönnum sínum til að verja sameiginlegt bandalagssvæði, þar á landsvæðið sem er á þjóðarábyrgð okkar. Með samhæfðri æfingu náinna bandamanna eins og þessari eykst geta okkar til snurðulauss samstarfs,“ sagði Haakon Bruun-Hansen, yfirmaður norska hersins í tilkynningu.
Á vefsíðunni Barents Observer er rifjað upp að í byrjun maí fóru bresk og bandarísk herskip í fyrsta sinn síðan um miðjan níunda áratuginn austur fyrir Knöskanes, nyrsta odda Noregs, og austur í Barentshaf, svipaða leið og hervélarnar flugu 3. júní. Skipin og flugvélarnar voru innan norskrar efnahagslögsögu.
Á Facebook-síður flugherstjórnar NATO segir að fjórar B-52-vélar hafi flogið inn yfir Norður-Íshaf miðvikudaginn 3. júní, þær hafi farið yfir Laptev-haf. Norsku vélarnar fylgdu þeim ekki þangað heldur rétt út fyrir norsku lögsöguna.
Haustið 2019 flugu þrjár B-52-vélar enn austar á Barentshafi en nær rússnesku yfirráðasvæði, bæði nálægt Novaja Zemlja og Kólaskaga.
Aleksandr Moisejev, aðmírall, yfirmaður rússneska Norðurflotans, sagði mánudaginn 1. júní að floti 30 herskipa, nokkurra kafbáta og aðstoðarskipa auk um 20 flugvéla mundi efna til viðamikillar æfingar síðar í júni á Barents- og Noregshafi.
Á vefsíðunni Barents Observer segir Thomas Nilsen fimmtudaginn 4. júní að þð virðist orðin „ný“ venja að rússneski flotinn æfi fyrir vestan Knöskanes í Noregshafi og langdrægar bandarískar sprengjuvélar fljúgi norður fyrir heimskautsbaug í Evrópu. Þetta sé einskonar fastur liður í geopólitískum leik umhverfis Noreg.
Sergei Rudskoj, yfirmaður höfuðagerðastjórnar rússneska herráðsins, efndi til kynningar mánudaginn 1. júní þar sem fullvissaði áheyrendur um að herafli sinn „fylgdist stöðugt með og skráði mikil hernaðarumsvif Bandaríkjanna og NATO-ríkja í nágrenni við landamæri okkar“.
Í máli rússneska hershöfðingjans kom fram að hann taldi æfingarnar beinast gegn Rússlandi. Hann sýndi á stórum skjá siglingaleið bresku og bandarísku herskipanna á Barentshafi í byrjun maí. Þar birtist að NATO-skipin hefðu haldið sig innan norsku efnahagslögsögunnar í Barentshafi en rússnesk herskip eltu þau.
Á rússneska kortinu sáust einnig tvo norsk njósnaskip, Marjata og Svedrup II, á siglingu undan Kólaskaga þar sem eru heimahafnir rússkneskra herskipa og kafbáta.
Sergei Rudskoj sagði að þá hefði kjarnorkuknúinn bandarískur kafbátur einnig verið á sveimi í Bartentshafi á þessum sama tíma. Æfingin hefði snúist um að ná til skotmarka á rússnesku landi og stöðva för langdrægra rússneskra skotflauga.
Þegar Rudoskíj ræddi um gagneldflaugakerfi Bandaríkjamanna (ABM) minnti hann á að unnið væri að því að reisa nýja Globuas-3 ratsjá í bænum Vardø á norðausturströnd Noregs við Barentshaf.
„Unnið er að því að reisa ABM-kerfi í Póllandi auk bandarísku stöðvanna í Rúmeníu. Enn er ástæða til að hafa áhyggjur af því að þarna kunni að verða settar upp Tomahawk-stýriflaugar. Þar að auki er unnið að því að endurnýja eldflaugavarnir í Globus-3 ratsjánnir í þorpinu Vardø í Norður-Noregi og auka getu ratsjárstöðvarinnar til að fylgjast því gerist inni á rússnesku yfirráðasvæði,“ sagði Sergei Rudskoj samkvæmt útskrift rússneska varnarmálaráðuneytisins frá kynningarfundi hans.