
Þrjár bandarískar B-52 langdrægar sprengjuþotur, P8 kafbátaleitarvél, eldsneytisvél og RC-135 eftirlitsvél flugu yfir Barentshaf miðvikudaginn 6. nóvember. Norskar F-16 orrustuþotur flugu á eftir bandarísku vélunum að 31° austur.
Þannig hefst grein eftir Thomas Nilsen, ritstjóra norsku vefsíðunnar Barents Observer föstudaginn 8. nóvember. Hér verður stuðst við grein hans.
Þetta er að minnsta kosti í þriðja sinn nú í haust sem langdrægum bandarískum sprengjuvélum er flogið norður fyrir heimskautsbaug í Evrópu. Að þessu sinni fóru vélarnar lengra en áður eftir alþjóðlegu flugleiðinni austur á bóginn og nær stöðvum sem skipta rússneska herinn mjög miklu.
B-52H Stratofortress vélarnar þrjár komu frá Fairford-flugherstöðinni í Bretlandi. Yfirstjórn bandaríska flughersins í Evrópu vildi ekki veita Barents Observer nákvæmar upplýsingar um ferðir vélanna umfram að þær hefðu flogið norður fyrir heimskautsbaug.
Thomas Nilsen vitnar hins vegar í nokkrar rússneskar vefsíður þar sem sagt er frá flugi vélanna. Þær hafi farið norður með strönd Noregs og beygt til austurs inn í Barentshaf fyrir norðan Noreg.
Einhvers staðar fyrir norðan Finnmörku skiptu vélarnar liði og héldu í þrjár ólíkar áttir: ein hélt sig á Barentshafi, önnur fór í norðaustur í áttina að Novaja Zemlja og sú þriðja flaug með strönd Kólaskaga í áttina að Kaninhöfða þar sem Hvítahafið hefst. Þarna eru heimahafnir og athafnasvæði rússneskra kafbáta.

Fimm norskar F-16 orrustuþotur fylgdu B-52-vélunum með strönd Noregs og inn í vesturhluta Barentshafs. Talsmaður norska hersins segir að norsku vélarnar hafi farið að 31°austur. Austasta varðstöð Norðmanna við Barentshaf á Vardø er á þessari lengdargráðu. Nilsen segir að svo virðist sem bandarísku vélarnar hafi flogið lengra í austur.
Á vefsíðunni EurAsia Daily segir að um 100 km hafi verið frá B-52 vélunum bæði að stöðvum Norðurflotans og meginæfingasvæði rússneska varnarmálaráðuneytisins á Novaja Zemlja.
Í tilkynningu flugherstjórnar Bandaríkjamanna í Evrópu segir að æfð hafi verið samvinna við norska flugherinn auk þess sem áhöfn um borð í P8 kafbátarleitarvél hafi hlotið þjálfun. Þá var KS-135 eldsneytisvél með í leiðangrinum og RC-135 eftirlitsflugvél.
Rússneskar orrustuþotur flugu ekki í veg fyrir bandarísku flugvélarnar.