Home / Fréttir / Bandarískar sprengjuþotur æfa í Norður-Svíþjóð

Bandarískar sprengjuþotur æfa í Norður-Svíþjóð

Bandarísk sprengjuþota lendir á Kallkax-velli í N-Svíþjóð 23. febrúar 2024.

Tvær hljóðfráar, langdrægar B-1B Lancers sprengjuþotur bandaríska flughersins lentu á Kallax-flugvelli við Luleå í Norður-Svíþjóð snemma að morgni föstudagsins 23. febrúar eftir beint flug frá Ellsworth-flugherstöðinni í Suður-Dakótaríki.

Í stuttri tilkynningu bandarísku flugherstjórnarinnar í Evrópu segir að til stuðnings vélunum verði bandarískt lið sent til Kallax og muni það „samlagast sænska hernum“. Bendir það til þess að vélarnar verði um nokkurn tíma í Svíþjóð.

Þess er vænst að ungverska þingið samþykki aðild Svía að NATO á fundi sínum mánudaginn 26. febrúar og innan skamms verði fáni Svíþjóðar síðan dreginn að húni við höfuðstöðvar NATO í Brussel til staðfestingar á inngöngu 32. aðildarríkis bandalagsins.

NATO-heræfingin mikla, Steadfast Defender 2024, stendur nú yfir og er æfingin Nordic Respone nyrst í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi liður í henni. Bandaríska flugherstjórnin segir að áhafnir sprengjuþotnanna muni samhæfa aðgerðir með liðsafla annarra ríkja.

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, fór föstudaginn 23. febrúar til Búdapest til að ræða við Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, fyrir ákvörðun ungverska þingsins. Ungverjar eiga sænskar orrustuþotur af JAS Gripen-gerð og leggja Svíar þeim lið við rekstur þeirra. Ætla Ungverjar að festa kaup á fjórum þotum til viðbótar.

Þetta er í annað skipti sem langdrægar bandarískar sprengjuþotur lenda á Kallax-flughervellinum. Fyrra skiptið var í júní 2023 þegar tvær þotur komu þangað frá Bretlandi og höfðu stutta viðdvöl.

Æfingin Nordic Response hefst undir stjórn Norðmanna fyrri hluta mars með þátttöku 20.000 hermanna frá 14 löndum. Þungamiðja æfingarinnar er að samhæfa varnir yfir landamæri nyrst á NATO-svæðinu milli Noregs, Svíþjóðar og Finnlands.

Um er að ræða viðamestu æfingu á vegum NATO norðan heimskautsbaugs frá því í kalda stríðinu. Flugherir senda um 100 vélar til þátttöku í æfingunum. Undan strönd Noregs verða meira en 50 kafbátar, freigátur, korvettur, flugmóðurskip og ýmis landgönguskip að sögn norska hersins.

Áður en Nordic Response hefst efnir finnski flugherinn til Hanki-24-æfingarinnar frá tveimur flugvöllum í Tikkakoski í Jyväskylä og Rovaniemi í Lapplandi. Flugvélar frá öðrum NATO-ríkjum taka þátt í æfingunni en Finnar segja að vélar þeirra muni einnig nota Kallax-flugvöllinn í Norður-Svíþjóð.

 

Heimild: Barents Observer.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …